Ís­lands­banki mun leggja til allt að 2 milljarða króna í nýju hluta­fé í Orkuna ehf., í tengslum við kaup félagsins á verslunar­keðjunni Sam­kaup.

Þetta kemur fram í fjár­festa­kynningu bankans sem birt var í tengslum við upp­gjör annars árs­fjórðungs.

Þar segir að bankinn hafi veitt svo­kallaða fyrir­greiðslu um áskrift að hluta­fé (e. underw­riting commi­t­ment), sem þýðir að hann ábyrgist að leggja fram hluta af fjár­magni ef áskrift annarra fjár­festa nægir ekki til að út­boðið gangi eftir.

Með þessari skuld­bindingu tryggir Ís­lands­banki að Orkan hafi að­gang að því fjár­magni sem þarf til að ljúka kaupunum á Sam­kaupum, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Nettó, Kjör­búðin, Kram­búðin og fleiri.

Orkan, dóttur­félag Skeljar fjár­festingarfélags, undir­ritaði í maí kaup­samning um kaup á öllum 53,1% hlut Kaup­félags Suður­nesja í Sam­kaupum, sem rekur verslanir m.a. undir merkjum Nettó, fyrir 2.878 milljónir króna.

Í kaup­hallar­til­kynningu í lok var greint frá því að kaup­verðið yrði greitt með af­hendingu á nýju hluta­fé í Orkunni sem á hálfs milljarðs króna hlut í Sam­kaupum vegna sam­einingar Sam­kaupa og Atlögu (sem hét áður Heim­kaup).

Sam­kaup er metið á 5,6 milljarða króna í við­skiptunum eða 13 krónur á hlut. Við­skipta­verð felur í sér að heildar­virði Sam­kaupa (e. enterprise valu­e) sé 9,6 milljarðar króna út frá skuldastöðu í lok fyrsta árs­fjórðungs.

Við­skiptin eru m.a. háð því að Orkan hafi komist að skuld­bindandi sam­komu­lagi við aðra hlut­hafa í Sam­kaupum um kaup á eignar­hlut þeirra í félaginu þannig að saman­lagður eignar­hlutur Orkunnar og annarra aðila tengdum Skeljar nemi að lág­marki 90,01% í kjölfar við­skipta.

Verðmæti hluta­bréfa Orkunnar við upp­gjör við­skiptanna verður 10.669 milljónir króna‏. Orkan á jafn­framt um 81% hlut í Lyfja­vali sem er bók­færður á 1.928 milljónir króna.