Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Arctic Theory hefur tryggt sér 260 milljóna króna fjármögnun frá Brunni vaxtarsjóði II sem stýrt er af Brunni Ventures og Landsbréfum. Fjármagnið verður nýtt til að þróa leikjaheim fyrirtækisins enn frekar ásamt því að ráða fleira starfsfólk. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Arctic Theory var stofnað í júní árið 2020 af þeim Matthíasi Guðmundssyni, Gísli Konráðssyni, Snorra Sturlusyni og Jóni Bjarna Bjarnasyni. Stofnendurnir fjórir hafa komið að nokkrum metnaðarfyllstu tölvuleikjum á síðustu áratugum, þar á meðal EVE Online, The Sims og fleiri. Einnig hafa þeir tekið þátt í uppbyggingu stærstu tölvuleikjafyrirtækja á Íslandi í gegnum árin. Má þar nefna CCP Games, 1939 Games, Parity Games og Directive Games.
Fyrirtækið er í miðri þróun á fyrsta fjöldaspilunarleik sínum sem verður aðgengilegur í lok þessa árs. Leikurinn er innblásinn af íslenskri náttúru þar sem náttúruöfl hafa mikið að segja, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Lögð er áhersla á samvinnu og samfélag frekar en samkeppni þar sem spilarar vinna saman að uppbyggingu ýmis konar innviða í gífurstórum leikjaheimi, að því er kemur fram í tilkynningu.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Á síðasta ári fékk Arctic Theory styrk frá Tækniþróunarsjóði til að þróa hermunartæknina GenOS. Tæknin opnar fyrir möguleika á land- og veðurfræðilegum breytingum í fjöldaspilunarumhverfi í rauntíma á áður óþekktum skala. GenOS tæknin er sérstök að því leyti að hún er hönnuð fyrir upplifanir í samfélagsheimum (e. metaverse). Leikurinn verður aðgengilegur í prufuútgáfu fyrir lok árs 2022 á PC tölvur og mun svo síðar vera aðgengilegur á öðrum leikjatölvum.
Gísli Konráðsson, einn af stofnendum Arctic Theory:
„Ég hef mikla trú á því að við stöndum á tímamótum þegar kemur að stafrænum samfélögum. Fjölspilunar tölvuleikir svo sem Roblox, Minecraft og Fortnite hafa síðustu ár sprengt utan af sér tölvuleikjarammann og hafa búið til grunn fyrir nýja tegund af samfélagsheimum (e. metaverse). Þessi breyting sést best hjá yngri kynslóðinni sem notar rauntíma upplifanir í samveru og samskiptum, til dæmis eins og í leiknum Fortnite. Gömlu samfélagsmiðlarnir, eins og Facebook berjast í bökkum við að halda í notendur og reyna að laga sig að þessum nýja heimi með misjöfnum árangri. Við hjá Arctic Theory erum í einstakri stöðu til að vera leiðandi í þróun samfélagsheima."
Sigurður Arnljótsson, fjárfestingastjóri hhjá Brunni Ventures:
„Það er leitun að einstaklingum með eins djúpa þekkingu í gerð fjölspilunarleikja og frumkvöðlateymið hjá Arctic Theory. Kynni mín af af þeim nær yfir áratugi frá tímum CCP þar sem þeir voru brautryðjendur um þróun samfélagsheima þess tíma. Það verður spennandi að fylgjast með og taka þátt í næstu skrefum hjá teyminu.“