Amaroq Minerals, auðlindafélag sem heldur á rannsóknar- og vinnsluheimildum á Grænlandi, hefur lokið hlutafjáraukningu þar sem félagið tryggði sér 30 milljónir punda, jafnvirði um 4,9 milljarðar króna, í lokuðu útboði. Fjármögnunin er gerð í undanfara fyrirhugaðrar skráningar Amaroq, sem hét áður AEX Gold, á First North-markaðinn á Íslandi þann 1. nóvember næstkomandi.
Hlutaféð var selt til innlendra og erlendra fjárfesta ásamt því að lykilstjórnendum og starfsfólki var gefinn kostur á að taka þátt í útboðinu. Arion banki og Landsbankinn höfðu umsjón með innlenda hluta útboðsins.
Í tilkynningu segir að andvirði hlutafjáraukningarinnar verði notað til að hefja vinnslu í Nalunaq gullnámunni í Suður-Grænlandi á næsta ári ásamt því að rannsaka frekar vinnanlegt gullmagn í námunni. Auk þess verði fé varið í rannsóknir á öðrum svæðum þar sem félagið hefur tryggt sér rannsóknarleyfi.
Sjá einnig: Áætlað söluverðmæti hækkað um 20 milljarða
Aukningin styðji jafnframt við samkomulag Amaroq og ACAM, sem greint var frá 10. júní síðastliðinn, þar sem fram kom að Amaroq stofni nýtt dótturfélag utan um leitarleyfi sín á Suður-Grænlandi þar sem ætla má að meirihluti vinnanlegra málma séu ekki gull heldur málmar eins og kopar, nikkel og fleiri. Þau leyfi þar sem ætla má að meirihluti vinnslutekna komi frá gullvinnslu verða áfram í beinni eigu Amaroq. ACAM mun leggja fram 18 milljónir punda fyrir 49% hlut í dótturfélaginu, en framlag Amaroq verður, auk vinnsluleyfanna, í formi aðstöðu á svæðinu, flutninga og kostnaðar við nýtingu á innviðum upp á um fimm milljónir punda.
Sjá einnig: Fimm milljarðar í leit og vinnslu á Grænlandi
„Með hlutafjáraukningunni og samkomulaginu við ACAM hefur Amaroq því tryggt sér fjármögnun upp á tæplega átta milljarða króna.“
Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals:
„Þessi hlutafjáraukning mun leika lykilhlutverk í því að ná frekari framþróun í eignasafni okkar á Grænlandi, þar sem við erum í leiðandi stöðu. Það verður sífellt skýrara að Grænland skipta sköpum í hagkerfi framtíðarinnar, en þar verður hægt að vinna mikið magn efnahagslega mikilvægra málma, sem verða lífsnauðsynlegir vestrænum ríkjum á næstu áratugum.
Með því að klára hlutafjáraukninguna og skráningu á íslenskan hlutabréfamarkað munum við geta haldið áfram framkvæmdum við Nalunaq námuna, sem er ein ríkasta gullnáma veraldar. Við munum einnig get hraðað rannsóknum okkar á öðrum leitarsvæðum þar sem finna má málma sem nauðsynlegir verða í orkuskiptum framtíðarinnar.“
Benedikt Gíslason, forstjóri Arion banka:
„Amaroq er fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar sem skráð verður á markað á Íslandi. Skráningin mun ekki aðeins auka fjölbreytileika íslensku hlutabréfaflórunnar, heldur opnar nýjar leiðir fyrir Íslendinga til að fjárfesta með beinum hætti í orkuskiptum. Við vonum að þessi skráning geti orðið til þess að auka samstarf Íslands og Grænlands og verði jafnvel öðrum fyrirtækjum fyrirmynd.“
Ellert Arnarson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans:
„Það er virkilega ánægjulegt að ljúka þessum stóra áfanga með félaginu og upplifa mikinn áhuga fjárfesta á vegferðinni sem er framundan. Skráningin greiðir jafnframt fyrir aðkomu íslenskra fjárfesta að nýjum og spennandi geira sem hlýtur sífellt meiri athygli á alþjóðlegum vettvangi. Þá skiptir ekki síður máli að Amaroq er metnaðarfullt fyrirtæki þegar kemur að samfélags- og umhverfismálum, en áhersla á þessa málaflokka er samofin árangri félagsins í framtíðinni. “
Amaroq Minerals var stofnað árið 2017 með megináherslu á gullleit og -rannsóknir á Grænlandi. Fyrirtækið er með leyfi til að leita að og vinna gull og aðra verðmæta málma í Suður-Grænlandi. Stærsta eign Amaroq er Nalunaq gullnáman, sem verið er að koma aftur í vinnslu.
Hlutabréf Amaroq eru skráð á mörkuðum í Toronto og London, en meðal stærstu hluthafa í félaginu eru íslenskir fjárfestar, þjóðarsjóðir Grænlands og Danmerkur og stærsti lífeyrissjóður Grænlands.
Sjá einnig: Grænland mikilvægt fyrir orkuskiptin
Öll námuvinnsla á vegum Amaroq verður unnin samkvæmt ESG stöðlum undir merkjum grænnar gullvinnslu þar sem leitast verður eftir sjálfbærni og sátt við umhverfið með ríkri áherslu á samfélagslega ábyrgð, þar sem sérstök áhersla er lögð á gott og uppbyggilegt samstarf við grænlensk stjórnvöld.