Endurskoðendafyrirtækið EY hefur rekið tugi bandarískra starfsmanna fyrir að hafa sótt fleiri en einn netkúrs í einu yfir endurmenntunarviku sem starfsfólkið þurfti að sækja í maí. Fyrirtækið segir að starfsfólkið hafi nýtt sér fjarvinnuaðstæður og þar með svindlað.

Að sögn FT taldi EY starfsfólkið hafa brotið gegn stefnu fyrirtækisins og væri einungis að nýta sér áhugaverða fundi og kúrsa sem fjölluðu um stafræn vörumerki og gervigreind.

Tímarnir töldust til þeirra 40 endurmenntunareininga sem EY krefur starfsfólk sitt um á hverju ári. Fyrirtækið líti svo á að það að fylgjast með tveimur kúrsum í einu jafngildi broti á siðferðisreglum þess.

„Gildi okkar um heiðarleika og siðferði eru í fararbroddi í öllu sem við gerum. Nýlega var gripið til viðeigandi aðgerða í fáum málum þar sem einstaklingar reyndust brjóta gegn alþjóðlegum siðareglum okkar og námsstefnum Bandaríkjanna,“ segir EY í tilkynningu.

Þeir starfsmenn sem misstu vinnuna hafa hins vegar gagnrýnt fyrirtækið fyrir tvískinnung og segja að tölvupóstar sem tengdust endurmenntuninni hafi hvatt þá til að taka þátt í eins mörgum fundum og dagskráin leyfði.

Annar fyrrum starfsmaður sagði að vinnumenningin innan EY geri það að verkum að starfsmenn þurfa að sinna mörgum verkefnum í einu. „Margir þurfa að hringja í tvo viðskiptavini samtímis og kveikja og slökkva á myndavélinni sinni eftir því hvern hann er að tala við. Ef þetta brýtur gegn siðareglum, þá gerir hitt það líka.“