Brú lífeyrissjóður, næst stærsti hluthafi Festi með 11% hlut, mun ekki styðja kjör Þórðar Más Jóhannessonar í stjórn smásölufyrirtækisins. „Við erum mótfallin því að Þórður Már taki aftur sæti í stjórn,“ segir í svari lífeyrissjóðsins við fyrirspurn Heimildarinnar sem fjallaði ítarlega um tilnefningu Þórðar Más í stjórn Festi í morgun.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti hluthafi Festi með 13,35% hlut, lýsir í svari sínu yfir vonbrigðum sínum með störf tilnefningarnefndar. LSR vísar í eigendastefnu sína þar sem fram kemur að við kosningu stjórnarmanna sé litið til þess að stjórnarmenn hafi ekki sýnt af sér hegðun sem kann að rýra traust þeirra og trúverðugleika.

LSR vísar einnig í ramma um hæfni, reynslu og þekkingu í skýrslu tilnefningarnefndar. Þar nái einn flokk yfir „Metnað, siðferði og samfélagsvitund“ segir í skýrslunni að til þessa flokks heyri m.a. metnaður fyrir hönd hluthafa Festi, menning og sjálfbærnistefna félagsins, siðferði, orðsporsvitund, félagsfærni, mannleg samskipti, samkennd og virkni við ákvarðanatöku.

„Í ljósi þessara áherslna í eigendastefnu LSR lýsir stjórn sjóðsins yfir vonbrigðum með störf tilnefningarnefndar Festis. Svo virðist sem nefndin hafi ekki tekið sérstakt tillit til nokkurra af þeim meginatriðum sem hún þó í skýrslu sinni telur upp að hafi verið höfð til hliðsjónar við tilnefningu sína.“

Af svörum LSR að dæma má fastlega gera ráð fyrir að hann greiði ekki atkvæði með Þórði Már í stjórnarkjöri á aðalfundi Festi sem fer fram 6. mars næstkomandi.

Heimildin sendi einnig fyrirspurn á Lífeyrissjóð verzlunarmanna (LIVE) og Gildi, sem eru í hópi fjögurra stærstu hluthafa Festi.

LIVE, sem á 10,9% hlut í Festi, sagði að ekki liggi fyrir hvernig sjóðurinn muni ráðstafa atkvæðum sínum á aðalfundinum. Gildi hafði ekki svarað fyrirspurninni þegar fréttin fór í loftið.

Stærstu hluthafar Festi í lok janúar 2024

Hluthafi Fjöldi hluta Í %
LSR (A- og B-deild) 40.648.868 13,35%
Brú og LsRb 33.680.639 11,06%
Lífeyrissjóður verzlunarmanna 33.120.000 10,88%
Gildi - lífeyrissjóður 29.244.704 9,60%
Brú Lífeyrissjóður starfs sveit 26.334.974 8,65%
Birta lífeyrissjóður 17.128.145 5,63%
Almenni lífeyrissjóðurinn 14.403.962 4,73%
Stapi lífeyrissjóður 14.001.127 4,60%
Frjálsi lífeyrissjóðurinn 9.778.091 3,21%
Stefnir - Innlend hlutabréf hs. 9.536.915 3,13%
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 9.262.579 3,04%
Festa - lífeyrissjóður 7.181.644 2,36%
Stormtré ehf. 7.100.924 2,33%
Brekka Retail ehf. 6.000.000 1,97%
Lífsverk lífeyrissjóður 5.523.243 1,81%
Stefnir - ÍS 5 hs. 5.479.230 1,80%
Kjálkanes ehf. 4.574.395 1,50%
Vanguard Total International S 3.946.051 1,30%
Vanguard Emerging Markets Stock 3.861.940 1,27%