Uber hefur náð samningi við kínverska rafbílaframleiðandann BYD um að bæta 100 þúsund nýjum rafbílum við bílaflota þjónustunnar. Fyrirtækin tvö segjast vilja stuðla að orkuskiptum með afsláttum, fjármögnun og leigu.
Samningurinn er til margra ára og fer fyrst í gegn í Evrópu og Suður-Ameríku. Þar á eftir færist hann yfir til Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálands.
Samningurinn kemur í kjölfar samdráttar í sölu á rafbílum víða um heim og nýlegra hækkana á innflutningstolla á kínverska rafbíla í Evrópu og Bandaríkjunum.
„Fyrirtækin ætla sér að lækka heildarkostnað við eignarhald á rafbílum fyrir ökumenn Uber, flýta fyrir upptöku rafbíla hjá Uber og kynna milljónir farþega fyrir grænni akstri,“ segir í tilkynningu frá bæði Uber og BYD.
Fyrr á þessu ári sagði Uber að það væri að vinna með Tesla að því að stuðla að upptöku rafbíla meðal ökumanna sinna í Bandaríkjunum og ætlaði sér að þróa sérsmíðaðan rafbíl með suðurkóreska bílaframleiðandanum Kia.