Farveitan Uber hefur kannað möguleikann á að kaupa bókunarsíðuna Exedia sem er metið á tæplega 20 milljarða dala á bandarískum hlutabréfamarkaði. Financial Times greinir frá.

Uber hefur leitað til ráðgjafarfyrirtækja á undanförnum mánuðum, eftir að hugmyndin um yfirtöku á Expedia var viðruð af þriðja aðila, til að kanna hvort slík viðskipti væru möguleg og hvernig stilla ætti kauptilboði upp samkvæmt þremur heimildarmönnum FT.

Áhugi Uber er sagður vera enn á fyrstu stigum og að alls óvíst sé hvort af þessu verði. Uber hafi ekki lagt fram formlega beiðni til Expedia um samrunaviðræður og engar viðræður stæðu yfir eins og er.

Forstjóri Uber, Dara Khosrowshahi, starfaði sem forstjóri Expedia á árunum 2005 til 2017 og situr enn í stjórn félagsins.

Hlutabréfaverð Expedia hefur hækkað um 7,7% í viðskiptum fyrir opnun markaða. Gengi hlutabréfa Uber hefur aftur á móti lækkað um 3,4%.