Hluta­bréfa­verð Festi hefur hækkað um tæp­lega 16% á þremur við­skipta­dögum frá því að félagið birti árs­hluta­upp­gjör þriðja árs­fjórðungs á miðviku­daginn síðasta.

Dagsloka­gengi félagsins fyrir upp­gjör eftir lokun markaða á miðviku­daginn var 230 krónur en gengið stendur í 266 krónum þegar þetta er skrifað. Saman­lögð velta síðustu þrjá daga er tæp­lega þrír milljarðar.

Ásta S. Fjeld­sted, for­stjóri Festi, sagði í upp­gjöri að rekstur félagsins á þriðja árs­fjórðungi hafi gengið betur en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Af þeim sökum hækkaði félagið EBITDA-spá sína fyrir árið um 400 milljónir króna.

Af­koma félagsins fyrir árið er nú áætluð á bilinu 12,7 til 13,1 milljarður króna.

Sam­kvæmt ný­birtu árs­hluta­upp­gjöri sam­stæðunnar nam vöru­sala félagsins 44,2 milljörðum króna og jókst um 6,9 milljarða eða 18,5% milli ára.

Nova birti einnig upp­gjör í síðustu viku og hefur gengi félagsins hækkað um 6% á tveimur við­skipta­dögum.

Hlutabréf í Nova taka við sér

Nova hagnaðist um 322 milljónir króna á þriðja árs­fjórðungi saman­borið við 266 milljónir á sama tíma­bili í fyrra. Hagnaðurinn á þriðja fjórðungi jókst um 20% milli ára.

Hluta­bréfa­verð Nova stóð í 3,82 krónum áður en upp­gjörið birtist eftir lokun markaða á fimmtu­daginn en dagsloka­gengið í dag var 4,04 krónur. Samsvarar það um 6% hækkun en gengið fór upp um 3,6% í viðskiptum dagsins.

Meira en milljarðs króna velta hefur verið með bréf Nova síðastliðna tvo viðskiptadaga.

Fjár­festingafélagið Skel leiddi lækkanir á markaði er gengi félagsins fór niður um tæp 3% í við­skiptum dagsins.

Hluta­bréfa­verð Skeljar hefur lækkað um 5,5% frá því að félagið til­kynnti að Sam­kaup, sem rekur verslanir Nettó, hefði ákveðið að slíta sam­runa­viðræðum við Sam­kaup og til­tekin félög í sam­stæðu Skeljar (Orkunnar, Löðurs og Heim­kaupa).

Úr­vals­vísi­talan lækkaði um 0,17% í við­skiptum dagsins og var heildar­velta á markaði 6,3 milljarðar.