Þinglýstir kaupsamningar voru tæplega 900 talsins í nóvembermánuði, eftir að hafa verið um 950 í október og kringum þúsund mánuðina tvo þar á undan, samkvæmt mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Samkvæmt fyrstu tölum um kaupsamninga í desember var að minnsta kosti 653 kaupsamningum þinglýst í mánuðinum.
Kaupsamningum hefur fækkað á haustmánuðum ef miðað er við vor- og sumarmánuði þessa árs, en frá marsmánuði og út júlímánuð voru þinglýstir kaupsamningar að meðaltali 1.178 í hverjum mánuði.
Samkvæmt HMS voru umsvif á fasteignamarkaði á haustmánuðum mjög svipuð og umsvif haustið 2023, en þó aðeins meiri.
Kaupsamningar í september-, október- og nóvembermánuði 2024 voru tæpum 9% fleiri en í sömu mánuðum ársins 2023 eða sem nemur 232 kaupsamningum.
Kaupsamningum um nýjar íbúðir á haustmánuðum fækkaði um 95 milli ára, sem jafngildir 16% samdrætti meðal nýrra íbúða.
Kaupsamningum um aðrar íbúðir fjölgaði aftur á móti um 327 á sama tímabili, sem jafngildir 16% fjölgun meðal annarra íbúða.
„Upplýsingar um fjölda íbúða sem teknar eru úr birtingu af auglýsingasíðum fasteigna benda til þess að umsvif á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu séu nú meiri en áður en að Grindvíkingar hófu að flytjast búferlum á vormánuðum. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eru umsvifin hins vegar á svipuðu róli og fyrir þá eftirspurnaraukningu sem stafaði af Grindavíkuráhrifunum svokölluðu,” segir í skýrslu HMS.
Þá fækkaði framboð á íbúðum til sölu á nýju ári um rúmlega 200 frá fyrri mánuði og stendur framboðið í 3.890 íbúðum.
Í samanburði við ársbyrjun 2024 eru nú um 500 fleiri íbúðir til sölu á landinu öllu.
Á höfuðborgarsvæðinu hefur framboðið aukist um ríflega 300 íbúðir samanborið við upphaf síðasta árs.
Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefur framboðið aukist um 100 íbúðir á tímabilinu og það sama á við annars staðar á landsbyggðinni.
„Fjölgun íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu síðastliðið ár skýrist að mestu af því að óseldum nýjum íbúðum hefur fjölgað og heldur hlutdeild nýrra íbúða í framboði áfram að hækka. Sömu sögu er að segja af nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem framboð eldri íbúða dróst saman á síðasta ári á meðan nýjum íbúðum á sölu fjölgaði. Hlutdeild nýrra íbúða í framboði hefur ekki verið hærri frá því að gagnasöfnun hófst síðla árs 2017.“
HMS segir að ein skýring á háu hlutfalli nú sé að nýbyggingar komi í meira mæli fyrr á sölu en áður.
Af um það bil 1.450 nýjum íbúðum til sölu á höfuðborgarsvæðinu í desember 2024 voru um 750 á matsstigi 1-5, sem þýðir að rúmlega helmingur auglýstra íbúða í nýbyggingum voru ekki fullbúnar.