Úrvalsvísitalan féll um 0,2% í 2,9 milljarðar króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Meira en þriðjungur veltunnar var með hlutabréf Alvotech.

Hlutabréfaverð líftæknilyfjafyrirtækisins hækkaðu um meira en 6% fyrir hádegi. Það má að stórum hluta rekja til þess að félagið tilkynnti að það myndi streyma stuttri kynningu í hádeginu þar sem Anil Okay, framkvæmdastjóra viðskipta Alvotech, myndi fjalla um þróun markaða. Fjárfestar biðu spenntir eftir fréttum um væntanlegan sölusamning í Bandaríkjunum sem félagið vinnur nú að.

Að loknum fundinum, sem hófst kl. 12:15 og stóð yfir í 6 mínútur, lækkaði hlutabréfaverð Alvotech aftur niður um rúm 6% og endaði daginn í 1.625 krónum á hlut, aðeins 0,3% yfir dagslokagengi hlutabréfanna í gær.

Á fundinum sagði Okay að félagið væri langt komið í viðræðum um sölusamning við stóran innkaupaaðila tryggingafélaga á bandaríska markaðnum vegna sölu á AVT 02 eða Simlandi, hliðstæðu Alvotech við Humira (adalimumab) í háum styrk með útskiptileika. Félagið geri ráð fyrir að tilkynna um samkomulag á næstu vikum.

Þróun hlutabréfaverðs Alvotech í Kauphöllinni í dag.

Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn hækkaði um 3,9%, mest af félögum Kauphallarinnar, í yfir hundrað milljóna króna viðskiptum.

Icelandair lækkaði næst mest af félögum aðalmarkaðarins eða um tæpt eitt prósent. Gengi hlutabréfa flugfélagsins stendur nú í 1,05 krónum á hlut og er um 22% lægra en í upphafi árs.