Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech hefur lækkað um tvö pró­sent í Kaup­höllinni í dag og stendur nú í 1.005 krónum á hlut.

Bréfin hafa nú lækkað um átta pró­sent frá því félagið birti síðasta árs­fjórðungs­upp­gjör sitt í síðustu viku.

Í upp­gjörinu sem birt var fyrr í þessum mánuði kom fram að tekjur Al­vot­ech af lyfjasölu á fyrri helmingi ársins námu 204,7 milljónum bandaríkja­dala, sem jafn­gildir rúm­lega 200 pró­senta aukningu frá sama tíma­bili í fyrra.

Þá reyndist annar árs­fjórðungur sá besti í sögu félagsins hvað varðar hand­bært fé frá rekstri og rekstrar­hagnaður nam 28,6 milljónum dala, í stað 43,4 milljóna dala taps árið áður.

Bók­færður hagnaður á fyrri hluta ársins var 141,7 milljónir dala sem er viðsnúningur frá 153,5 milljóna dala tapi á sama tíma­bili árið áður.

Vöxturinn skýrist einkum af aukinni sölu á hliðstæðunni AVT02 í Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum, auk AVT04 á fjölmörgum mörkuðum, þar á meðal í Bandaríkjunum.
Leyfis­greiðslur og aðrar tekjur námu 101,3 milljónum dala, lægri en í fyrra þegar tíma­bundnir áfangar í lyfjaþróun leiddu til hærri tekna.

Heildar­skuldir Al­vot­ech voru þó 1,12 milljarðar Bandaríkja­dala í lok júní, þar af 46 milljónir dala í af­borgunum næsta árs.

Félagið hefur nýverið sam­einað tvö langtímalán í eitt með 6,0% álagi á milli­banka­vexti í dollurum (SOFR), sem lækkar vaxta­kostnað til næstu 12 mánaða um rúmar 8,2 milljónir dala.

Sex pró­senta álag á SOFR endur­speglar þó enn fremur háan fjár­magns­kostnað og að lán­veit­endur telji áhættu í rekstri félagsins veru­lega.

Í kjölfar samningsins var bók­færður 16,7 milljóna dala hagnaður vegna lækkunar skulda og lægra vaxtaálags. Stjórn­endur leggja áherslu á að styrkja eigin­fjár­stöðu og halda áfram að lækka fjár­magns­kostnað.