Hlutabréfaverð Alvotech hefur lækkað um tvö prósent í Kauphöllinni í dag og stendur nú í 1.005 krónum á hlut.
Bréfin hafa nú lækkað um átta prósent frá því félagið birti síðasta ársfjórðungsuppgjör sitt í síðustu viku.
Í uppgjörinu sem birt var fyrr í þessum mánuði kom fram að tekjur Alvotech af lyfjasölu á fyrri helmingi ársins námu 204,7 milljónum bandaríkjadala, sem jafngildir rúmlega 200 prósenta aukningu frá sama tímabili í fyrra.
Þá reyndist annar ársfjórðungur sá besti í sögu félagsins hvað varðar handbært fé frá rekstri og rekstrarhagnaður nam 28,6 milljónum dala, í stað 43,4 milljóna dala taps árið áður.
Bókfærður hagnaður á fyrri hluta ársins var 141,7 milljónir dala sem er viðsnúningur frá 153,5 milljóna dala tapi á sama tímabili árið áður.
Vöxturinn skýrist einkum af aukinni sölu á hliðstæðunni AVT02 í Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum, auk AVT04 á fjölmörgum mörkuðum, þar á meðal í Bandaríkjunum.
Leyfisgreiðslur og aðrar tekjur námu 101,3 milljónum dala, lægri en í fyrra þegar tímabundnir áfangar í lyfjaþróun leiddu til hærri tekna.
Heildarskuldir Alvotech voru þó 1,12 milljarðar Bandaríkjadala í lok júní, þar af 46 milljónir dala í afborgunum næsta árs.
Félagið hefur nýverið sameinað tvö langtímalán í eitt með 6,0% álagi á millibankavexti í dollurum (SOFR), sem lækkar vaxtakostnað til næstu 12 mánaða um rúmar 8,2 milljónir dala.
Sex prósenta álag á SOFR endurspeglar þó enn fremur háan fjármagnskostnað og að lánveitendur telji áhættu í rekstri félagsins verulega.
Í kjölfar samningsins var bókfærður 16,7 milljóna dala hagnaður vegna lækkunar skulda og lægra vaxtaálags. Stjórnendur leggja áherslu á að styrkja eiginfjárstöðu og halda áfram að lækka fjármagnskostnað.