Samstarf Gangverks við Sotheby‘s má rekja til þess þegar ég hóf störf sem tækni- og þróunarstjóri hjá Sotheby‘s árið 2015. Þá réð ég Gangverk til þess að vinna með mér að stafrænni umbreytingu Sotheby‘s,“ segir Óli Björn Stephensen, framkvæmdastjóri Basta.
Basta tryggði sér 200 milljóna króna fjármögnun í lok síðasta árs. Félagið hóf rekstur á árinu 2022 og var stofnað í kringum hugbúnað utan um stafræn uppboð.
„Ég var ráðinn til að taka Sotheby‘s í gegn, frá því að vera uppboðshús sem tók mestmegnis við tilboðum í sal og svo gegnum tölvupóst, síma og fax, yfir í að verða fullkomlega stafrænt, hvort sem um samningsferlið (e. consignment) eða tilboðin er að ræða. Áður komu um 3% af tilboðum í gegnum stafrænt form. Í dag er hlutfallið 95%. Þetta breyttist ótrúlega fljótt.“
Óli segir þetta sennilega með árangurríkustu stafrænu byltingum sem hafa átt sér stað hjá gömlum fyrirtækjum síðastliðin 10 ár.
„Við fórum ekki bara í stafræna umbyltingu heldur frískuðum við upp á vörumerkið og hófum samstarf við vörumerki á borð við Supreme, sem virkjaði yngri kynslóðina. Þetta heppnaðist mjög vel. Notkun á vef og appi tók mikið stökk og tekjurnar létu ekki á sér standa.
Þetta er sennilega með árangurríkustu stafrænu byltingum sem hafa verið gerðar síðastliðin 10-15 ár hjá rótgrónum fyrirtækjum. Þetta var fyrst og fremst hinu kröftuga teymi Gangverks að þakka að þetta heppnaðist eins vel og skyldi.“
Úr einum kúnna í þrjátíu
Óli keypti helmingshlut í Gangverki, móðurfélagi Basta, í lok árs 2020 og í kjölfarið fór félagið í mikla vinnu við strategískar stefnubreytingar.
„Við breyttum viðskiptamódelinu frá því að félagið var einungis að vinna fyrir Sotheby’s yfir í að vera með þrjátíu kúnna um allan heim. Breytt viðskiptamódel hefur leyft okkur að vaxa á síðastliðnum árum.“
Í dag eru þrjú dótturfyrirtæki í Gangverkssamstæðunni, þar af tvö sprotafyrirtæki og er annað þeirra Basta. Hitt sprotafyrirtækið er heilsutæknifyrirtækið dala.care sem nýverið tryggði sér 1,4 milljóna dala fjármögnun. Þá gekk Gangverk frá kaupum á úrúgvæska hugbúnaðarhúsinu Zaelot á öðrum ársfjórðungi í fyrra.