Aukin áhætta getur haft í för með sér meiri ávöxtun og þannig hafa fjárfestar heilt yfir grætt meira á því að eiga hlutabréf en skuldabréf í gegnum tíðina. Ávinningurinn af því að eiga hlutabréf í stað skuldabréfa hefur hins vegar farið minnkandi í ár og hefur bilið ekki verið minna í 20 ár, að því er segir í umfjöllun Wall Street Journal.
Greiningaraðilar vestanhafs óttast að þetta muni draga úr þátttöku á hlutabréfamarkaði á næstu misserum en allar helstu vísitölur hafa verið á mikilli uppleið í ár.
Ein leið til að greina virði hlutabréfa er að bera saman ávöxtun bréfanna (með því að deila áætluðum hagnaði fyrirtækis fyrir næsta ár með gengi bréfanna í dag) við ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa.
Mismunurinn þarna á milli sýnir fjárfestum þá auknu ávöxtun sem þeir geta fengið með því að eiga hlutabréf fram yfir skuldabréf. Miðað við stöðuna í dag er munurinn heldur lítill.
Bilið milli ávöxtunar á því að eiga bréf sem tilheyrir S&P 500 vísitölunni og 10 ára bandarísku ríkisskuldabréfi féll niður í 1,1% í síðustu viku. Hefur munurinn ekki verið minni síðan árið 2002.
Bilið byrjaði að minnka seinni hluta síðasta árs er ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa byrjaði að hækka í kjölfar vaxtahækkana seðlabankans. Á þeim tíma byrjuðu hlutabréf að ná jafnvægi eftir að fjárfestar seldu mikið af bréfum í byrjun árs.
Í ár hefur ávöxtunarkrafan ríkisskuldabréfa verið nokkuð stöðug á meðan hlutabréfavísitölur hafa hækkað mikið. Fjárfestar vestanhafs telja ótækt að bilið verði svona lítið til lengri tíma en það gerðist síðast þegar dot-com bólan sprakk undir lok tíunda áratugarins.