Zym Ice hf., móðurfélag íslenska sjávarlíftæknifyrirtækisins Unbroken, hefur tryggt sér 800 milljóna króna fjármögnun með útgáfu breytanlegra skuldabréfa. Fjárfestar í viðskiptunum eru IS Haf fjárfestingar slhf., Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og nokkrir einkafjárfestar.

Fjármögnuninni er ætlað að styðja við alþjóðlega stækkun Unbroken, einkum á sviði sölu, dreifingar og markaðsstarfs á erlendum mörkuðum.

Steinar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Zym Ice, segir að fjármögnunin sé mikilvæg fyrir fyrirtækið og sé einnig staðfesting á trausti til vörunnar og teymisins.

„Unbroken er eitt framsæknasta sjávarlíftæknifyrirtæki á sínu sviði. Með fjármögnuninni getum við byggt hraðar upp alþjóðlega dreifingu á vörunni okkar og mætt þannig aukinni eftirspurn.“

Unbroken framleiðir samnefnt fæðubótarefni sem byggir á niðurbrotnu laxapróteini. Varan er meðal annars notuð af atvinnuíþróttafólki, í heilbrigðisgeiranum og af almenningi.

Unbroken hefur undirritað samstarfssamning við alþjóðlega hjólreiðaliðið Lidl-Trek.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Á dögunum undirritaði fyrirtækið einnig samstarfssamning við alþjóðlega hjólreiðaliðið Lidl-Trek, sem tekur nú þátt í Tour de France, og hyggur á víðtæka dreifingu í gegnum alþjóðleg sölukerfi tengd því samstarfi.

„Við teljum Unbroken vera afar spennandi fjárfestingartækifæri sem samræmist okkar fjárfestingarstefnu vel. Virkni vörunnar er vísindalega rannsökuð og hefur bæði afreksíþróttafólk og áhugamenn tekið vörunni ákaflega vel,“ segir Brynjólfur Gísli Eyjólfsson, sjóðstjóri hjá IS Haf fjárfestingum.