Félag at­vinnu­rek­enda fagnar niður­stöðu Héraðs­dóms Reykja­víkur í máli Inn­ness ehf., félags­manns FA, gegn Sam­keppnis­eftir­litinu.

Í dómnum reyndi á lög­mæti breytinga, sem gerðar voru á búvörulögum síðastliðið vor, þar sem kjötafurðastöðvum var veitt víðtæk undanþága frá sam­keppnislögum.

Í til­kynningu frá FA segir að félagið fagni „ein­dregið“ þeirri niður­stöðu að laga­breyting Alþingis hafi ekki laga­gildi „enda hafi hún brotið gegn 44. grein stjórnar­skrárinnar, þar sem kveðið er á um að ekkert laga­frum­varp megi samþykkja nema það hafi verið rætt við þrjár um­ræður á Alþingi.“

„Í dómnum eru upp­haf­legt frum­varp mat­vælaráðherra um breytingu á búvörulögum og breytingar, sem at­vinnu­vega­nefnd Alþingis gerði á frum­varpinu, bornar saman og segir dómurinn að það blasi við að upp­haf­lega frum­varpið og breytingar nefndarinnar eigi „fátt sam­eigin­legt annað er þing­málsnú­merið og heitið.“ Fyrra frum­varpið hafi átt að efla hags­muni bænda en breytingin eins og hún var samþykkt sé í þágu af­urðastöðva. Ólíkir aðilar njóti því góðs af,“ segir í til­kynningu frá FA.

Í dómnum er einnig komist að þeirri niður­stöðu að í frum­varpinu, eins og at­vinnu­vega­nefnd breytti því, séu undanþágur frá sam­keppnislögum allt aðrar og miklu meiri en í upp­haf­lega frum­varpinu.

FA segir að í frum­varpinu hafi í upp­hafi verið gert ráð fyrir að bann við mis­notkun á markaðs­ráðandi stöðu af­urðastöðva, sem og sam­runa­reglur og -eftir­lit sam­keppnis­réttar myndu gilda fullum fetum, en það eigi ekki við eftir breytingar at­vinnu­vega­nefndar.

Bændur hafi einnig átt að njóta góðs af upp­haf­lega frum­varpinu.

„Af­urðastöðvar njóta á hinn bóginn góðs af eins og Alþingi af­greiddi frum­varpið og það án til­lits til þess hvort þær stöðvar séu reknar af bændum,“ segir í dómnum.

„Þessi dómsniður­staða kemur ekki á óvart. Félag at­vinnu­rek­enda hefur sagt, allt frá því að at­vinnu­vega­nefnd breytti frum­varpi mat­vælaráðherra, að þetta væru ólög, vinnu­brögðin óboð­leg og matið á áhrifum laga­breytingarinnar í raun ekkert, en ljóst er að hún hefur af­drifarík áhrif á sam­keppni og skaðar hags­muni verslunar, neyt­enda og bænda. Viðvörunum sam­taka fyrir­tækja, launþega og neyt­enda var ekki sinnt heldur málið keyrt í gegnum þingið og þeir þing­flokkar, sem stóðu að þessum for­kastan­legu vinnu­brögðum, sitja nú í súpunni,“ segir Ólafur Stephen­sen, fram­kvæmda­stjóri Félags at­vinnu­rek­enda.

Ólafur segir blasa við að þeir samningar af­urðastöðvanna sem gerðir hafi verið á grund­velli laga­breytingarinnar hafi nú ekkert gildi.

Þá séu lögin sjálf­krafa úr gildi fallin miðað við þessa dómsniður­stöðu.

„Það er afar mikilvægt að mál fái þá þing­legu með­ferð sem stjórnar­skráin gerir kröfu um. Þeirri með­ferð er ætlað mikilvægt hlut­verk við setningu leik­reglna sam­félagsins. Í þessu máli var aug­ljóst að svo var ekki. Niður­staða dómstólsins í þá veru er því eðli­leg og rétt. Eftir stendur að um­rædd lög hafa ekki laga­gildi,“ segir Páll Rúnar M. Kristjáns­son, hæstaréttar­lög­maður sem flutti málið fyrir hönd Inn­ness.

For­saga málsins er sú, að eftir að Alþingi samþykkti undanþágu kjötafurðastöðvanna frá sam­keppnislögum, sendi Inn­nes Sam­keppnis­eftir­litinu (SE) kröfu­bréf og krafðist þess að stofnunin myndi beina því til kjötafurðastöðvanna að haga starf­semi sinni til samræmis við ákvæði sam­keppnis­laga og viðhafa enga þá starf­semi sem bryti gegn banni laganna gegn samráði, mis­notkun á markaðs­ráðandi stöðu eða ákvæðum þeirra um sam­runa.

Sam­keppnis­eftir­litið taldi sig hins vegar bundið af áður­nefndri laga­breytingu, en í henni fælist að það væri ekki lengur á valdsviði þess að grípa til íhlutunar gagn­vart hátt­semi fram­leiðenda­félaga sem undanþágan tæki til.

SKE hafnaði því kröfu Inn­ness um íhlutun með stjórn­valdsákvörðun í júlí.

Í ákvörðuninni kom fram að málið kynni að verða tekið til með­ferðar á ný, kæmust dómstólar að þeirri niður­stöðu að breytingin á búvörulögum (lög nr. 30/2024) hefði ekki lög­form­legt gildi. Í fram­haldi af því stefndi Inn­nes SE fyrir dóm og krafðist flýti­með­ferðar.

Í dómi héraðs­dóms segir að þar sem laga­breytingin hafi ekki laga­gildi, standi hún ekki í vegi fyrir því að Sam­keppnis­eftir­litið taki erindi Inn­ness frá í júlí til úr­lausnar í samræmi við sitt lög­boðna hlut­verk.

Magnús Óli Ólafs­son, for­stjóri Inn­ness, segir í frétta­til­kynningu að máls­höfðun fyrir­tækisins hafi ekki beinst að einstökum fyrir­tækjum eða at­höfnum þeirra, heldur hafi fyrst og fremst verið til þess hugsuð að leitast við að tryggja jafn­ræði fyrir­tækja í sam­keppni.

„Að ekki sé verið að veita hluta af við­skiptalífinu undanþágu frá ströngum reglum sem keppi­nautar viðkomandi fyrir­tækja verða að undir­gangast, að viðlögðum refsingum. Þá sé erfitt fyrir fyrir­tæki, sem hafi varið miklum fjár­munum og vinnu til að stækka og ná hag­ræðingu með kaupum eða sam­einingu við önnur félög og þurft að undir­gangast stranga skoðun og skil­yrði sam­keppnis­yfir­valda, að horfa upp á að sam­einingar keppi­nauta lúti engu slíku eftir­liti eða skil­yrðum. „Breytingar á búvörulögunum áttu að færa neyt­endum ábata, en það er fyrst og fremst virk sam­keppni sem er til hags­bóta fyrir neyt­endur, ekki að taka hana úr sam­bandi,“ segir Magnús Óli.