„Staðan var bara þannig að Fjármálaeftirlitið horfði stöðugt yfir öxlina á okkur og fékk mánaðaruppgjörin rakleiðis send til sín. Félagið var því ekki hátt skrifað þarna fyrstu árin hvorki af keppinautum né öðrum,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson fráfarandi forstjóri Varðar um fjárhagsstöðu félagsins þegar hann tók við því árið 2006 fljótlega upp úr stofnun.
„Það mætti ætla miðað við umtalið stundum að í tryggingarekstur sé mikinn og auðfenginn gróða að sækja. Svo er ekki, raunar öðru nær.“
Guðmundur segir marga hafa komið inn á tryggingamarkaðinn á sinni 16 ára forstjóratíð en flestir hrökklast út aftur.
„Ég þurfti oft að vera hundleiðinlegur og segja nei þegar mitt fólk kom til mín og vildi gera eitthvað nýtt,“ segir hann um þennan tíma, en hann hélt svo fast í hverja krónu í þá daga að margir höfðu sérstaklega orð á því.
„Það hefur nú verið gert grín að mér fyrir að vera aðhaldssamur. Jú það má segja að ég hafi verið það, en ef þú átt ekki pening þá verður þú bara að haga útgjöldunum eftir því.“
Nánar er rætt við Guðmund í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.