Hugbúnaðarfyrirtækið Unity Software hefur ákveðið að segja upp á þriðja hundrað starfsmanna. Rúmlega hálft ár er síðan Unity réðst í hópuppsögn af sambærilegri stærð. Wall Street Journal greinir frá.
Fyrirtækið tilkynnti í gær að það hyggist fækka 284 störfum. Unity tók fram að starfsmönnum sem sagt verður upp gefst kostur á að sækja um aðrar stöður innan fyrirtækisins. Starfsmenn Unity voru yfir 8 þúsund talsins fyrir þessa uppsagnarlotu.
Unity segir að meðal ástæðna fyrir hagræðingaraðgerðunum sé neikvæð þróun í hagkerfinu sem hefur leitt til þess að hægst hefur á stafræna auglýsingamarkaðnum. Þá horfi fyrirtækið til þess að ná fram samlegðaráhrifum í kjölfar yfirtöku á ironSource sem fjölgaði starfsmönnum samstæðunnar um meira en 1.400.
Stór tæknifyrirtæki hafa ráðist í umfangsmiklar hópuppsagnir á síðustu misserum, m.a. vegna vaxandi verðbólgu, hækkandi vaxtastigs og horfa í efnahagslífinu. Amazon tilkynnti nýlega um að það myndi fækka 18 þúsund störfum hjá sér og Meta, móðurfélag Facebook, ákvað að segja upp tæplega 11 þúsund manns.
Sala í bandaríska tölvuleikjaiðnaðinum nam 56,6 milljörðum dala í fyrra og dróst saman um 5% frá fyrra ári, samkvæmt skýrslu sem NPD Group gaf út í gær. Unity fór ekki varhluta af þróuninni en hægst hefur á tekjuvexti félagsins.
John Riccitiello, forstjóri Unity, sagði í bréfi til starfsmanna að uppsagnirnar væru hluti af aðgerðum félagsins til að straumlínulaga reksturinn og skerpa á áherslum. Fyrirtækið lokaði deild sem sérhæfði sig íþróttum og beinni afþreyingu þar sem talið var að hún stuðlaði ekki að bættri rekstrarniðurstöðu á næstunni.