Guðrún Ása Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar
Hvernig var árið 2023 á heildina litið?
Viðburðaríkt. Það hafa verið forréttindi að aðstoða heilbrigðisráðherra við að ná árangri í heilbrigðismálum eftir margra ára kyrrstöðu eins og t.d. varðandi samninga um þjónustu sérgreinalækna og aðgerðir sem bið hefur myndast eftir. Áhersla á samvinnu, gagnaöflun og gagnagreiningu til að bæta mönnun, skipulag, forgangsröðun og fleira er farin að skila sér. Það er ekki til betri jarðvegur fyrir langvarandi árangur.
Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Það sem stendur upp úr er að hafa tekið þátt í aukinni og breiðri samfélagslegri og pólitískri sátt um að byggja upp blandað heilbrigðiskerfi á Íslandi að norrænni fyrirmynd. Því tengdu þá fór ég fyrir skipulagningu heilbrigðisþingsins í ár sem sneri að mikilvægi þess að nýta stafræna þróun, tækni, gervigreind og nýsköpun til góðs í heilbrigðiskerfinu og styrkja samstarfið við Norðurlöndin á þeim vettvangi. Það var frábært að finna fyrir þeim meðbyr sem skapaðist. Við eigum og getum sett okkur háleit markmið þegar kemur að uppbyggingu og þróun heilbrigðisþjónustunnar.
Hvaða væntingar hefurðu til næsta árs?
Undir lok árs var ég ráðin í stöðu framkvæmdastjóra Klíníkurinnar og hlakka mikið til að halda áfram að byggja upp heilbrigðiskerfið á nýjum vettvangi. Ég trúi því að frábært starfsfólk Klíníkurinnar haldi áfram að láta gott af sér leiða og skipti sköpum í því að skapa sátt um heilbrigðiskerfið okkar. Á persónulegum nótum þá bættist nýr ferfættur fjölskyldumeðlimur við fjörugt heimilishaldið. Ég svitna við tilhugsunina um hvort það takist að ala hann nógu vel upp þar sem enginn getur skammað þetta krútt!
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði