Uppgjör Tesla fyrir þriðja ársfjórðung, sem birt var í gærkvöldi, var talsvert betra en markaðsaðilar áttu von á, samkvæmt Wall Street Journal. Hlutabréfaverð Tesla hefur hækkað um tæplega 11% í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag.

Eftir krefjandi fyrri árshelming, þar sem hagnaður rafbílaframleiðandans lækkaði tvo ársfjórðunga í röð, jókst hagnaður Tesla á þriðja fjórðungi um 17% frá sama tímabili í fyrra og nam 2,2 milljörðum dala. Tekjur félagsins jukust um 8% milli ára og námu 25,2 milljörðum dala.

Fram kemur að aukin sala á kolefnisheimildum til annarra bílaframleiðanda og orkueining Tesla hafi stuðlað að bættri arðsemi hjá félaginu. Þá jukust afhendingar á heimsvísu einnig á fjórðungnum.

Á fjárfestafundi sagði Elon Musk, forstjóri Tesla, að hann geri ráð fyrir að bílasala félagsins gæti aukist um 20-30% á árinu 2025, sem yrði talsverð framför frá yfirstandandi ári en afhendingar félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins eru um 6% færri en á sama tímabili í fyrra.

Musk staðfesti jafnframt að Tesla hefði fallið frá áformum um 25 þúsund dollara rafbíla og hyggst fremur gefa út ódýrari útgáfur af núverandi týpum sem verða verðlagðar undir 30 þúsund dollara með niðurgreiðslum. Von sé á þeim bílum á fyrri árshelmingi 2025.

Í kjölfarið sé stefnt að á gefa út sjálfkeyrandi leigubil sem Tesla kynnti fyrir tveimur vikum.