Afkoma Landsbankans var jákvæð um 12,4 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi árins 2015 samanborið við 14,9 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2014. Á öðrum ársfjórðungi hagnaðist bankinn um sex milljarða króna samanborið við 10,6 milljarða króna hagnað ári fyrr.
Þetta kemur fram í uppgjöri annars ársfjórðungs Landsbankans sem Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans kynnti í höfuðstöðvum bankans í morgun. Aðspurður segir Steinþór að uppgjörið standist væntingar bankans og sé jafnvel betra en vonast var til en að nú sé hafin vinna við að styrkja enn frekar grunnrekstur bankans.
Stærsta ástæðan fyrir hagnaðarsamdrætti á milli ára er minni hagnaður vegna virðisbreytingu útlána og annarra einskiptisliða sem hafa haft mikil áhrif á afkomu bankans síðustu ár. Til að styrkja stoðir bankans til framtíðar ætlar bankinn sér að draga úr kostnaði og auka viðskipti. Að sögn Steinþórs er bankinn einnig vel undir losun hafta búinn vegna sterkrar lausafjárstöðu.
VB Sjónvarp ræddi við Steinþór.