Full­trúar­ráð Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík kom saman til fundar í Val­höll í gær­kvöldi þar sem til­laga Varðar, stjórnar full­trúar­ráðsins, um upp­stillingu í Reykja­víkur­kjör­dæmunum tveimur var sam­þykkt.

Tvo þriðju hluta fundar­manna þurfti til ef flokkurinn ætlaði ekki að halda próf­kjör í Reykja­vík.

Guð­laugur Þór Þórðar­son, um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráð­herra og odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­víkur­kjör­dæmi norður í síðustu kosningum, og Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra og odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­víkur­kjör­dæmi suður í síðustu kosningum, studdu bæði til­lögu Varðar.

Stefnt á að listarnir liggi fyrir í næstu viku

Kjör­nefnd var kosin á fundinum sem hefur það verk­efni næstu daga að stilla upp á lista flokksins. Full­trúa­ráð flokksins mun síðan koma saman að nýju og kjósa um listana.

Ás­laug Arna segir í sam­tali við Við­skipta­blaðið að stefnt sé að því að listarnir liggi fyrir í byrjun næstu viku.

„Það var stórt próf­kjör í Reykja­vík í síðustu kosningum og mikil þátt­taka. Því var þetta talin besta leiðin núna til að hefja kosninga­bar­áttuna sem fyrst,“ segir Ás­laug Arna.

„Við erum að leggja loka­hönd á undir­búning fyrir kosninga­bar­áttuna. Við erum með sterka fram­bjóð­endur en það er verk að vinna og við hlökkum til að taka sam­talið við kjós­endur,“ segir Ás­laug Arna.