Úrvalsvísitalan hækkaði um eitt prósent í 1,9 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Tólf félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins og fimm lækkuðu.

Icelandair hækkaði mest allra félaga eða um 4,7% í 250 milljóna veltu. Hlutabréfaverð flugfélagsins stendur nú í 1,91 krónu á hlut og hefur ekki verið hærra frá því í byrjun maí. Gengi Icelandair hefur hækkað um ríflega þriðjung í júlí. Á First North-markaðnum hækkuðu hlutabréf Play um 4,6% í hundrað milljóna viðskiptum. Gengi Play stendur nú í 18,2 krónum.

Þrjú félög skiluðu uppgjörum fyrir annan ársfjórðung eftir lokun markaða í gær. Hlutabréfaverð Festi, sem hagnaðist um 1,3 milljarða á fjórðungnum, hækkaði um 2,3% í 80 milljóna viðskiptum og stendur nú í 223 krónum. Gengi Arion banka, sem hagnaðist um nærri tíu milljarða, hækkaði um 0,6% í 200 milljóna viðskiptum.

Marel greindi í gær frá því að hagnaður á öðrum ársfjórðungi hafi numið 9,6 milljón evra á öðrum ársfjórðungi, eða um 1,3 milljörðum króna, sem er ríflega 60% lækkun frá fyrra ári. Gengi Marels féll um 0,3% í 457 milljóna veltu í dag og stendur nú í 604 krónum á hlut, sem er um 30% lægra en í byrjun ársins.