Miklar lækkanir voru á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, eins og á alþjóðlegum mörkuðum. Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,66% í viðskiptum dagsins og hefur nú lækkað um rúm 12% frá áramótum.
Gengi bréfa Origo lækkaði um 8,2% í 45 milljón króna viðskiptum. Icelandair lækkaði um 6,5% í rúmlega 300 milljóna viðskiptum. Gengi flugfélagsins hefur lækkað um 20% síðastliðnar tvær vikur og stendur nú í 1,78 krónum á hlut.
Heildarvelta á aðalmarkaði nam 6 milljörðum króna í viðskiptum dagsins. Mest velta var með bréf Arion banka, en viðskipti með bréfin námu 1,8 milljörðum króna og lækkaði gengi bréfa félagsins um 2,5%.
Viðskipti með bréf Marel námu 1,5 milljörðum króna og lækkaði gengi bréfa félagsins um 3,3%. Gengi bréfa Marel hefur lækkað um 20% frá áramótum. Um 950 milljóna króna velta var með bréf Kviku banka, en gengi bréfa bankans lækkaði um rúmlega 2% í viðskiptum dagsins. Eina félagið sem hækkaði í viðskiptum dagsins var Síldarvinnslan, um 0,7% í 260 milljóna viðskiptum.
Á First North markaðnum lækkaði gengi bréfa Play um rúm 3m í 45 milljóna viðskiptum. Kaldalón lækkaði einnig um 2,7% í 30 milljóna viðskiptum.
Evrópska vísitalan Stoxx Europe 600 lækkaði um 3,36% á milli daga. Bandarísku vísitölunar S&P 500 og Dow Jones hafa báðar lækkað nokkuð milli daga, þegar þetta er skrifað. S&P hefur lækkað um 1,5% og Dow Jones um 1,25%. Breska vísitalan FTSE 100 lækkaði um 3,5% á milli daga.