Árlegur sumarfundur utanríkisráðherra Norðurlanda fór fram á Ísafirði í dag en Ísland er í formennsku norrænnar samvinnu í ár, þar á meðal í utanríkispólitísku samstarfi Norðurlanda.
Ráðherrarnir komu til Ísafjarðar í gærkvöld en formlegur fundur þeirra fór fram í Edinborgarhúsinu í morgun.
Að sögn Utanríkisráðuneytisins hafi stuðningur við Úkraínu og alþjóðasamfélagið, samskiptin við Rússland og staða mannúðarmála í Afganistan verið ofarlega á baugi á fundinum.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ræddi meðal annars ákvörðun sína að leggja niður starfsemina í sendiráði Íslands í Moskvu sem tilkynnt var um í liðinni viku.
„Þótt Ísland sé eina ríki Norðurlanda sem ákveðið hefur að leggja niður starfsemina í sendiráði sínu í Moskvu hafa öll Norðurlöndin gripið til aðgerða gagnvart rússneskum diplómötum í höfuðborgum sínum,“ segir utanríkisráðherra.
Ástandið í Afganistan, samskiptin við Kína og hvernig sporna megi við áróðri og upplýsingaóreiðu Rússlands utan Vesturlanda voru einnig til umræðu á fundinum.