Útboðsgengi í útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka verður 106,56 krónur á hlut í öllum þremur tilboðsbókum. Þetta hefur í för með sér að heildarvirði útboðsins á nemur 90.576 milljónum króna, að því er kemur fram í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.
„Útboðsgengi tilboðsbókar B og tilboðsbókar C var 106,56 krónur á hlut þar sem tilboð í tilboðsbók A fóru verulega umfram grunnmagn útboðsins.“
Heildareftirspurn 190 milljarðar
Heildareftirspurn útboðsins alls um 190 milljörðum króna. Ráðuneytið tilkynnti um fimmleytið í dag að ákveðið hefði verið að stækka útboðið upp í allan 45,2% eftirstandandi hlut ríkisins.
Ráðuneytið sagði að ákvörðunin hefði verið tekin í ljósi „umtalsverðrar heildareftirspurnar og fordæmalausrar eftirspurnar innanlands“ í útboðinu.
„Um talsverða heildareftirspurn og verulega eftirspurn innanlands var að ræða í útboðinu og sýndu bæði almennir fjárfestar og fagfjárfestar, sem og innlendir og erlendir, útboðinu mikinn áhuga,“ segir í tilkynningunni sem ráðuneytið birti í kvöld.
„Við úthlutun verður sérstök áhersla lögð á að tryggja þátttöku einstaklinga og því verða áskriftir í tilboðsbók A ekki skertar. Auk þess var leitast við að laða að stóra eftirlitsskylda fagfjárfesta þar sem eftirspurn var umtalsverð.“
Ráðuneytið segir að með tilliti til forgangs tilboðsbókar A, sé gert ráð fyrir að fjárfestum verði tilkynnt um úthlutun vegna tilboðsbókar A fyrir opnun markaða á morgun.
„Komi til þess að frekari hlutir séu í boði eftir úthlutun til einstaklinga, munu fjárfestar í tilboðsbók B og C fá upplýsingar um úthlutun á miðvikudagsmorgun, þann 21. maí 2025.“