Útilíf gekk frá kaupum á skíða- og útivistarversluninni Ölpunum í síðasta mánuði en Elín Tinna Logadóttir, framkvæmdastjóri Útilífs segir ýmis tækifæri fylgja kaupunum.

„Alparnir eru rótgróið og þekkt félag, á stóran og sterkan viðskiptavinahóp sem hefur verið traustur Ölpunum. Því fannst okkur þetta vera þetta vera spennandi tækifæri að sameina þessi flottu félög undir merkjum Útilífs.“

Alparnir hafa undanfarin ár verið með verslun í Faxafeni en henni verður lokað á næstu dögum þar sem starfsemin mun flytjast yfir í verslun Útilífs í Skeifunni. Útilíf mun þó halda áfram rekstri í húsnæðinu í Faxafeni en þar verður Útilífsmarkaðurinn, nýr heilsárs útsölumarkaður, til húsa.

„Við erum spennt fyrir því að opna Útilífsmarkaðinn þar sem viðskiptavinum gefst kostur á að versla íþrótta- og útivistarvörur á frábæru verði allan ársins hring og hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum þar í seinni hluta september,“ segir Elín.

Nýr útsölumarkaður Útilífs opnar í húsnæði Alpanna síðar í mánuðinum.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Ölpunum fylgir meðal annars umboðið fyrir merkin Salomon og Atomic, sem eru stór merki í skíða- og hlaupaheiminum. Þegar ný verslun Útilífs var opnuð í Skeifunni var það meðal annars markmið að byggja upp kraftmikla skíðadeild og því eru merkin kærkomin viðbót þar.

„Við teljum okkur nú vera með sterkustu skíðadeild landsins og bíðum spennt eftir skíðavetrinum.“ segir Elín Tinna.

„Með kaupunum á Ölpunum fáum við líka dýrmæta reynslu og mikla þekkingu innan útivistarmarkaðsins og við erum spennt að fá starfshópinn frá Ölpunum yfir til okkar. Þar er flottur hópur sem að kann að þjónusta vel.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina hér.