Útilíf gekk á dögunum frá kaupum á skíða- og útivistarvöruversluninni Ölpunum. Elín Tinna Logadóttir, framkvæmdastjóri Útilífs, segir spennandi vegferð fram undan en kaupin á Ölpunum hafi verið skref í rétta átt.

„Frá því að nýir eigendur tóku við í lok árs 2021 höfum við gengið í gegnum mikla stefnubreytingu og sjáum fyrir okkur mikið af sóknarfærum. Við viljum efla Útilíf enn frekar og vera leiðandi afl á markaðinum,“ segir Elín.

Vinsældir útivistar og hreyfingar hafa vaxið mikið undanfarin ár að sögn Elínar, ekki síst í heimsfaraldrinum. Fólk hafi þá uppgötvað hvað Ísland er frábært land til að stunda hvers kyns útivist.

„Í breyttu vaxtaumhverfi þá hefur kannski hægt á þessum markaði en við sjáum fyrir okkur að þetta sé samt ákveðin hugarfarsbreyting til framtíðar. Í nútíma tæknivæddu samfélagi þurfum við að fá meiri jarðtengingu og núvitund.“

Þau vilji vera fyrsta val viðskiptavinarins og þar spili þjónusta lykilhlutverk, sérstaklega fyrir þá viðskiptavini sem eru að stíga sín fyrstu skref í útivist. Þó netverslun hafi aukist þá jafnist ekkert á við það að fá frábæra þjónustu við val á fatnaði og búnaði.

Verslanir Útilífs eru í dag þrjár talsins.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

„Við erum mjög stolt af því að í verslunum okkar starfa margir sérfræðingar sem þekkja útivist og hreyfingu mjög vel og vilja leggja sig fram við að veita frábæra þjónustu þegar fólk kemur til okkar,“ segir Elín en það sé ekki sjálfsagt að fá slíka þjónustu í verslunum. Starfsfólk geti með réttum tækjum og tólum blómstrað í vinnu og tekið þátt í þeirri vegferð sem Útilíf er á.

„Við erum með mörg af fremstu vörumerkjum heims, bæði innan útivistar og hreyfingar, og erum í miklum sóknarhug. Við höfum verið að gera bæði stefnu- og skipulagsbreytingar hjá okkur sem að miða að því að bæta vöruúrvalið okkar, byggja þjónustuna okkar upp og gera verslanirnar okkar sterkari. Þannig ég myndi segja að það sé spennandi vegferð fram undan þar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.