Samkvæmt greiningardeild Íslandsbankaer útlit fyrir fremur mjúka lendingu hagkerfisins eftir um hálfrar prósentu vaxtalækkun Seðlabankans í morgun.
Vaxtalækkunin var í takti við væntingar markaðsaðila og bankans en að mati Seðlabanka Íslands hafa verðbólguhorfur batnað.
„Vaxtalækkunarferli bankans er komið á skrið og útlit er fyrir nokkuð myndarlega lækkun stýrivaxta á komandi fjórðungum,“ segir í greiningu bankans sem Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, skrifar.
Í framsýnni leiðsögn SÍ segir þó að þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar séu enn yfir markmiði sem kallar á varkárni og að mótun peningastefnunnar næstu misseri muni sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Greiningardeild Íslandsbanka túlkar yfirlýsinguna með þeim hætti að nú sé vaxtalækkunarferlið komið á skrið.
„Peningastefnunefndin vill þó halda raunvöxtum allháum næstu mánuðina í það minnsta og verður væntanlega gagnadrifin fremur en að halda tilteknu striki við lækkunartaktinn hvað sem tautar og raular,” skrifar Jón Bjarki.
Í greiningu Íslandsbanka segir að þótt vaxtalækkunarferlið haldi trúlega áfram nokkuð óslitið næstu fjórðunga má lesa í orð peningastefnunefndarinnar að hún vilji ekki ganga of hratt um gleðinnar dyr.
Trúlega mun hún kjósa að halda raunvaxtastiginu nokkuð háu enn um sinn.
„Gangi spár um hjaðnandi verðbólgu eftir og verðbólguvæntingar halda áfram að fylgja í humátt á eftir teljum við líklegt að vextir verði áfram lækkaðir um 25-50 punkta við hverja vaxtaákvörðun á komandi ári.“
Bráðabirgðaspá Íslandsbanka sem birtist fyrir viku hljóðar upp á 6,5% stýrivexti í árslok 2025 og 5,5% vexti um mitt ár 2026.
„Teljum við þá spá enn góða og gilda. Verði bakslag í hagþróun eða verðbólguhorfur batna meira en útlit er fyrir nú gæti lækkunarferlið orðið hraðara.“