Sam­kvæmt greiningar­deild Ís­lands­bankaer út­lit fyrir fremur mjúka lendingu hag­kerfisins eftir um hál­frar pró­sentu vaxtalækkun Seðla­bankans í morgun.

Vaxtalækkunin var í takti við væntingar markaðsaðila og bankans en að mati Seðla­banka Ís­lands hafa verðbólgu­horfur batnað.

„Vaxtalækkunar­ferli bankans er komið á skrið og út­lit er fyrir nokkuð myndar­lega lækkun stýri­vaxta á komandi fjórðungum,“ segir í greiningu bankans sem Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka, skrifar.

Í framsýnni leiðsögn SÍ segir þó að þrálát verðbólga og verðbólgu­væntingar séu enn yfir mark­miði sem kallar á varkárni og að mótun peninga­stefnunnar næstu misseri muni sem fyrr ráðast af þróun efna­hags­um­svifa, verðbólgu og verðbólgu­væntinga.

Greiningar­deild Ís­lands­banka túlkar yfir­lýsinguna með þeim hætti að nú sé vaxtalækkunar­ferlið komið á skrið.

„Peninga­stefnu­nefndin vill þó halda raun­vöxtum all­háum næstu mánuðina í það minnsta og verður væntan­lega gagna­drifin fremur en að halda til­teknu striki við lækkunar­taktinn hvað sem tautar og raular,” skrifar Jón Bjarki.

Í greiningu Ís­lands­banka segir að þótt vaxtalækkunar­ferlið haldi trú­lega áfram nokkuð óslitið næstu fjórðunga má lesa í orð peninga­stefnu­nefndarinnar að hún vilji ekki ganga of hratt um gleðinnar dyr.

Trú­lega mun hún kjósa að halda raun­vaxta­stiginu nokkuð háu enn um sinn.

„Gangi spár um hjaðnandi verðbólgu eftir og verðbólgu­væntingar halda áfram að fylgja í humátt á eftir teljum við lík­legt að vextir verði áfram lækkaðir um 25-50 punkta við hverja vaxtaákvörðun á komandi ári.“

Bráða­birgða­spá Ís­lands­banka sem birtist fyrir viku hljóðar upp á 6,5% stýri­vexti í árs­lok 2025 og 5,5% vexti um mitt ár 2026.

„Teljum við þá spá enn góða og gilda. Verði bak­slag í hagþróun eða verðbólgu­horfur batna meira en út­lit er fyrir nú gæti lækkunar­ferlið orðið hraðara.“