Eftir áraraðir af krísu og stöðnun stendur ítalski bankageirinn frammi fyrir einni umfangsmestu sameiningaröldu í sögu sinni. Mörg yfirtökutilboð eru í gangi samhliða því sem bæði stjórnvöld, fagfjárfestar og bankastjórnendur keppa um áhrif.
Samkvæmt Financial Times geta niðurstöðurnar mótað framtíð evrópsks fjármálaumhverfis.
Upphaf atburðarásarinnar má rekja til endurreisnar Monte dei Paschi di Siena (MPS), elsta banka heims, sem hafði verið þjóðnýttur árið 2017 eftir áratuga taprekstur, slæmar fjárfestingar og skuldasöfnun.
Árið 2024 tókst bankanum undir stjórn Luigi Lovaglio að styrkja stöðu sína eftir vel heppnað hlutafjárútboð og greiddi bankinn arð í fyrsta sinn í 13 ár í fyrra.
Þetta voru tímamót fyrir hægristjórn Giorgiu Meloni, sem sá tækifæri til að nota MPS sem burðarás í svokölluðu „þriggja banka kerfi“ landsins en MPS er í samkeppni við Intesa Sanpaolo og UniCredit.
Í kjölfarið keypti ríkið hlut í Banco BPM en ríkisstjórn Meloni vill sjá MPS sameinast Banco BPM. Forstjóri BPM, Giuseppe Castagna, hafnaði hugmyndinni opinberlega en í kjölfarið hófst fjöldi óvæntra atburða.
UniCredit gerði yfirtökutilboð í BPM, að verðmæti 10 milljarða evra.
MPS svaraði með 13 milljarða evra yfirtökutilboði í Mediobanca, áhrifamikinn fjárfestingarbanka sem einnig á stærstan hlut í tryggingarisanum Generali.
Í framhaldinu tilkynnti Mediobanca yfirtökutilboð í Banca Generali, með því að bjóða Generali sjálfu eigin hlut sinn í staðinn.Þessi keðja yfirtökutilboða kom bæði stjórnmálamönnum og fjárfestum í opna skjöldu.
Alberto Nagel, forstjóri Mediobanca, sagði m.a. að yfirtökutilboðið frá MPS hafi verið gert með það í huga að valda bankanum tjóni, þar sem verðmatið var fremur lágt og hlutabréf bankans féllu.
Caltagirone í skugganum
Að sögn FT stendur hinn aldraði auðjöfur, Francesco Gaetano Caltagirone, á bak við atburðarrásina en hann er stór hluthafi í bæði Mediobanca og Generali.
Hann hefur árum saman reynt að taka stjórn á bönkunum tveimur og mistókst nýverið að losa Philippe Donnet úr stöðu forstjóra Generali.
Að sögn FT sér Caltagirone þessa samrunahreyfingu sem nýja leið að markmiðum sínum.
„Stund sannleikans hjá Generali er að renna upp,“ segir Stefano Caselli, deildarforseti við Bocconi-háskóla, við FT.
Sérfræðingar telja að yfirtaka MPS á Mediobanca gæti orðið leið hans til að breyta stjórn bankans og í framhaldinu hafa áhrif á stjórn Generali.
Caltagirone á ásamt fjárfestingarfélaginu Delfin, sem er í eigu Del Vecchio-fjölskyldunnar, um 27% í Mediobanca.
Róm heldur í taumana með gylltri valdheimild
Ítalska ríkið hefur nýtt sér í auknum mæli svokölluð golden power-lög, sem veita ríkinu heimild til að takmarka eða stöðva samruna- og yfirtökutilboð sem snerta þjóðarhagsmuni.
Þegar UniCredit gerði tilboð í BPM setti ríkið skilyrði um að bankinn hætti allri starfsemi í Rússlandi og héldi áfram að kaupa ítölsk ríkisskuldabréf. Inngrip ríkisins með þessum hætti hefur vakið óhug innan fjármálageirans.
En fjármálaráðherrann, Giancarlo Giorgetti, fullyrðir að ríkisvaldið hafi ekki bein áhrif á tilboð MPS í Mediobanca en segir það geta flýtt fyrir því að ríkið losi sig úr eigendahaldinu í bankanum.
„Ef tilboðið gengur eftir verður eignarhlutur okkar aðeins 5% – og eftir það gæti komið til að við stígum til hliðar,“ sagði hann við Financial Times.
Sérfræðingar vara þó við hættunni á að samrunarnir taki langan tíma og endi með lágmarksþátttöku hluthafa, sem myndi auka óvissu í kerfinu.
„Slík þróun er það versta sem gæti komið fyrir bankakerfið,“ sagði Stefano Caselli, deildarforseti Bocconi-háskóla.
Yfirtökutilboðin og breytingar á stjórn Mediobanca og Generali hafa víðtæk áhrif, meðal annars vegna þess að Generali er stærsti kaupandi ítalskra ríkisskuldabréfa.
Nýtt eignastýringarfélag sem Generali hyggst stofna með franska bankanum Natixis hefur þegar vakið áhyggjur í Róm, þar sem það gæti dregið úr stuðningi Generali við ríkisfjármál Ítalíu.
Ríkið hefur þó ekki nýtt sér „gyllta valdið“ til að stöðva samstarfið, en fjármálaráðherra Ítalíu hefur ekki útilokað að grípa enn frekar inn í.