Tilnefningarnefnd Íslandsbanka og valnefnd Bankasýslu ríkisins hafa lagt til að Valgerður Hrund Skúladóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Sensa, og Stefán Sigurðsson, fyrrum forstjóri Sýnar, verði kjörin í sjö manna stjórn Íslandsbanka á aðalfundi bankans sem fer fram 21. mars næstkomandi.

Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að Anna Þórðardóttir, sem hefur setið í stjórninni frá árinu 2016, hafi tilkynnti nefndinni í síðasta mánuði að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.

Þá sagði Frosti Ólafsson sig úr stjórninni í byrjun árs þar sem hann var að taka við stöðu hjá McKinsey & Company. Frosti, sem er fyrrum framkvæmdastjóri Olís, hafði setið í stjórninni frá árinu 2020.

Í stjórn Íslandsbanka sitja sjö einstaklingar. Af þeim tilnefnir þriggja manna valnefnd Bankasýslu ríkisins þrjá stjórnarmenn, í samræmi við 42,5% eignarhlut ríkisins í bankanum. Bankasýslan tilnefnir eftirtalda einstaklinga:

  • Agnar Tómas Möller, stjórnarmaður - tók sæti í stjórn í mars 2023
  • Haukur Örn Birgisson, stjórnarmaður - tók sæti í stjórn í júlí 2023
  • Valgerður Hrund Skúladóttir, tilnefnd í stjórn

Tilnefningarnefnd bankans leggur til að auk þeirra sem Bankasýslan tilnefndi verði eftirtalin kjörin í stjórn bankans:

  • Linda Jónsdóttir, stjórnarformaður – tók sæti í stjórn í júlí 2023
  • Helga Hlín Hákonardóttir, stjórnarmaður – tók sæti í stjórn í júlí 2023
  • Stefán Pétursson, stjórnarmaður – tók sæti í stjórn í júlí 2023
  • Stefán Sigurðsson, tilnefndur í stjórn

Tilnefningarnefnd leggur jafnframt til, í samráði við Bankasýslu ríkisins, að Linda Jónsdóttir verði endurkjörin sem formaður stjórnar.

Tólf framboð bárust

Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að tólf framboð til aðalstjórnar hafi borist til nefndarinnar. Fimm þeirra voru síðar dregin til baka.

Valnefnd Bankasýslunnar tilnefnir Valgerði Hrund Skúladóttur í stjórn bankans. Hún var kosinn í stjórn Íslandsbanka á aðalfundi í fyrra en hlaut ekki endurkjör á hluthafafundi í júlí í fyrra.

Valgerður er stofnandi upplýsingatæknifyrirtækisins Sensa og hefur verið framkvæmdastjóri þess frá upphafi stofnun félagsins árið 2002. Hún hefur setið í stjórnum upplýsingatæknifyrirtækjanna Staki Automation og Talenta, Siminn DK og Sensa A/S og situr núna í stjórn fjártæknifyrirtækisins Memento og Erit ehf.

Þá leggur tilnefningarnefnd Íslandsbanka til að Stefán Sigurðsson taki sæti í stjórn bankans. Hann þekkir vel til bankans en hann starfaði sem framkvæmdastjóri eignastýringar Íslandsbanka á árunum 2008-2014 og var meðlimur framkvæmdastjórnar bankans, forstöðumaður og síðar framkvæmdastjóri Stefnumótunar hjá Glitni. Þar áður sem verkefnastjóri fyrirtækjaráðgjafar Glitnis í Danmörku. Einnig starfaði hann að eigin viðskiptum Íslandsbanka á árunum 1998-2000.

Stefán starfaði sem forstjóri Sýnar á árunum 2014-2019. Hann býr í Kaupmannahöfn og starfar nú að eigin verkefnum og sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Stefán er í dag stjórnarformaður Verðbréfamiðstöðvar Íslands hf., auk þess að sitja í stjórn FÓLK Reykjavík ehf., Isavia ANS ehf., North Ventures ehf. og North Ranga ehf.

Í tilnefningarnefnd Íslandsbankans sitja Helga Valfells sem er formaður nefndarinnar, Hilmar Garðar Hjaltason og Linda Jónsdóttir, sem er jafnframt stjórnarformaður Íslandsbanka.

Á heimasíðu Bankasýslunnar kemur fram að í valnefnd hennar sitja Sverri Briem, sem er formaður valnefndarinnar, ásamt Ólafíu Rafnsdóttur og Birki Leóssyni.