Verkfall starfsmanna Vail Resorts hefur leitt til víðtækra truflana á stærsta skíðasvæði Bandaríkjanna á annasamasta tíma ársins. Fyrirtækið rekur ríflega 40 skíðasvæði í Ameríku, Evrópu og Ástralíu. Þar á meðal er Park City í Utah, stærsta skíðasvæði Norður-Ameríku, en aðeins um fjórðungur brauta á svæðinu var opinn í byrjun vikunnar vegna skorts á starfsmönnum.

Viðræður Vail Resorts og félags skíðaeftirlitsstarfsmanna hafa staðið yfir í 10 mánuði og hófst verkfallið þann 27. desember.  Skíðaeftirlitsmenn krefjast meiri launahækkunar en fyrirtækið kveðst tilbúið til að bjóða, um 4%. Verkalýðsfélagið segir núverandi grunnlaun, sem hafa verið hækkuð um 50% á undanförnum 4 árum og standa nú í 21 dollara, ekki nóg sökum þess hve framfærslukostnaður er hár á Park City svæðinu.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. janúar 2025.