Vantrauststillaga á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra var felld á Alþingi rétt í þessu.
Jón Gunnarsson var eini stjórnarþingmaðurinn sem sat hjá í atkvæðagreiðslu en bæði hann og Óli Björn Gunnarsson hafa verið ósáttir með framgöngu Bjarkeyjar í tengslum við hvalveiðar.
Óli Björn kaus gegn vantrauststillögunni og gerði grein fyrir atkvæði sínu
„Á mjög fjölmennum flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í ágúst á síðastliðnu ári viðurkenndi ég það að það hefðu verið mistök hjá okkur Sjálfstæðismönnum að samþykkja að atvinnuvegaráðuneyti væri í höndum Vinstri grænna,“ sagði Óli Björn.
„Ég er enn þá þeirrar skoðunar að eftir að hafa setið í þingsal og hlustað á þann málflutning stjórnarandstöðunnar og málatilbúnað, ef málatilbúnað skyldi kalla, þá get ég aldrei slegist í lið með slíku fólki. Ég mun aldrei vera í liði með þeim sem reyna að fella ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ég mun þegar ég vakna í fyrramálið, líta glaður í spegil og nokkuð sáttur við sjálfan mig eftir að hafa sagt nei,“ sagði Óli Björn.
Miðflokkurinn lagði fram vantrauststillöguna á þriðjudaginn en þetta er fjórða vantrauststillagan sem lögð hefur verið fram á vorþingi, sú þriðja á hendur matvælaráðherra.