Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin (EIOPA) varar við því að ríkisstjórnir og bankar innan sambandsins muni eiga í erfiðleikum með að takast á við vaxandi kostnað af náttúruhamförum eins og flóðum og skógareldum í framtíðinni.
Á vef Financial Times segir að sífellt fleiri heimili muni ekki geta tryggt heimili sín vegna náttúruhamfara og gæti það valdið óstöðugleika innan bankakerfisins.
Árlegur kostnaður vegna náttúruhamfara innan ESB, sem felur meðal annars í sér þurrka, storma og skemmdir vegna kulda, hefur verið að meðaltali 44,5 milljarðar evra frá 2020 til 2023.
„Ég held að þetta sé stærsta áhættan sem samfélagið stendur frammi fyrir. Það eru margar ástæður fyrir því en þetta gæti valdið fjárhagslegum óstöðugleika. Það þarf fyrst að borga mikið fyrir eignatjón og það verður líka vandamál ef fólk getur ekki fengið tryggingar fyrir húsin sín,“ segir Petra Hielkema, formaður EIOPA.
Vandamálið er einnig sjáanlegt fyrir utan Evrópu en samkvæmt tryggingafélaginu Swiss Er nam vátryggingatjón vegna náttúruhamfara á alþjóðavísu 135 milljörðum dala á síðasta ári.
Heilkema segir að hún sé að þrýsta á ESB til að fjármagna samstarf milli einkaaðila og hins opinbera til að veita endurtryggingu fyrir náttúruhamfarir til að lækka kostnaðinn og auka framboð á tryggingu innan sambandsins.