Ævar Kærnested lauk B.Sc. prófi í byggingartæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík í vor en þar rannsakaði Ævar byggingareðlisfræðileg vandamál sem fylgja gjarnan eldri steinsteyptum veggjum sem eru einangraðir að innan.
Í lokaverkefninu sínu, Varðveiting íslenskra útveggja, rannsakaði Ævar þessa byggingaraðferð en þar segir að slíkir veggir séu sérstaklega viðkvæmir fyrir steypuskemmdum þar sem steypan sé óvarin frá veðri og vindi.
Markmið verkefnisins var að rannsaka þá grotnunarferla sem íslenski útveggurinn verður fyrir og síðan stilla upp og bera saman mismunandi varðveitingaraðferðir með aðstoð hita- og rakaflæðigreiningarforritsins WUFI® Pro.
Ævar komst að því að íslenski útveggurinn hafði almennt mjög hátt rakastig, sem var oft yfir hættumörkum, og að veðurálag spilaði þar stærsta hlutverkið.
Hann segir að loftræst klæðning að utan án viðbótareinangrunar dugi til að vatnsverja steypu en útþornun steypunnar verði afskaplega hæg út af hitastigi hennar. Þá geti viðbótareinangrun að utan skilað miklum árangri við að stuðla að þessari útþornun.
Múreinangrunarkerfi reyndist jafnframt áhrifarík lausn í byggingum þar sem ekki var heimilt að breyta útliti en niðurstöður Ævars sýna að lykilþáttur í árangri þegar kemur að því að draga úr skemmdum sé hækkun á hitastigi steypunnar.
Með verkefninu vildi Ævar leggja sitt af mörkum til umræðunnar um viðhald og verndun eldri bygginga á Íslandi og hefur verkefnið tengst beint þeim verkefnum sem Ævar hefur sinnt hjá Verkvist.