Út­lit er fyrir að stýri­vextir Seðla­bankans haldist óbreyttir eða lækki lítil­lega í næstu viku þrátt fyrir væntingar á fyrri hluta ársins um að hægt yrði að slaka á peninga­stefnunni fyrir sumarið.

Þetta kemur fram í nýrri greiningu Kon­ráðs S. Guðjóns­sonar, hag­fræðings og fyrr­verandi efna­hags­ráðgjafa ríkis­stjórnarinnar.

Hann bendir á að sú sviðs­mynd sem margir vonuðust eftir snemma árs, að stýri­vextir gætu verið komnir niður í 7% í lok maí, hafi ekki ræst, meðal annars vegna þrálátrar verðbólgu og verðbólgu­væntinga.

Á fundi peninga­stefnu­nefndar í næstu viku er því ekki búist við um­tals­verðum að­gerðum. Þó að vafi leiki á um hvort nefndin lækki vexti um 0,25 pró­sentur eða haldi þeim óbreyttum í 7,75%, telur Kon­ráð lík­legra að beðið verði með breytingar að sinni.

Í greiningu á vef sínum Ráð­deild kemur fram að raunstýri­vextir, þ.e. vextir að teknu til­liti til verðbólgu, muni áfram veita aðhald, enda er gert ráð fyrir að þeir verði yfir 4% í ágúst, jafn­vel með óbreyttum nafn­vöxtum.

Frá síðasta vaxtaákvörðunar­fundi í mars hefur verðbólga mælst á upp­leið og fór í 4,2% í síðustu mælingu.

Þótt hluti þeirrar hækkunar skýrist af tíma­bundnum þáttum, svo sem páska­vikum, þá er al­mennt talið að verðbólgan muni einungis hjaðna hægt yfir sumarið. Greiningar, líkt og frá Arion banka, spá 3,7% verðbólgu í ágúst.

Verðbólgu­væntingar eru enn viðvarandi yfir mark­miði og valda því að peninga­stefnu­nefnd þarf að sýna varfærni.

Á meðan væntingarnar haldast háar er lítið svigrúm fyrir lækkanir, jafn­vel þótt vísi­tala neyslu­verðs fari ör­lítið lækkandi.

Þrátt fyrir hert aðhald í formi há­vaxta hafa hag­sveiflu­vísar ekki sýnt merki um skarpa kólnun.

At­vinnu­leysi er lítið, einka­neysla er áfram öflug og velta fyrir­tækja heldur velli. Leiðandi hag­vísar, á borð við samræmda mæli­kvarða Analyti­ca, sýna að hag­kerfið er lík­lega nærri jafn­vægis­vexti og jafn­vel á upp­leið.

Það dregur enn frekar úr nauð­syn vaxta­afsláttar og hvetur frekar til þess að Seðla­bankinn bregðist við með varkárni.

„Þetta er fíllinn í her­berginu“

Kon­ráð segir að blákaldur veru­leikinn sé sá að launa­hækkanir um þessar mundir, eins og frá land­námi, hafa verið mun meiri en samræmast 2,5% verðbólgu­mark­miði Seðla­bankans.

„Í mars hækkaði launa­vísi­talan um 6,9% milli ára og á vafa­laust þátt í að ágætis gangur virðist vera í einka­neyslu heimilanna, nokkuð sem peninga­stefnu­nefnd vakti sér­stak­lega at­hygli á í síðustu fundar­gerð sinni. Þetta er fíllinn í her­berginu en fáir vekja at­hygli á honum, jafn­vel þó að fjallað sé um að inn­lendar vörur hækki hraðar í verði en inn­fluttar,“ segir Korn­ráð.

Slíkar hækkanir styðja áfram við neyslu og eftir­spurn, sem aftur heldur verðbólguþrýstingi við.

Þótt launaþróun fái ekki ætíð mikla um­fjöllun í tengslum við verðbólgu er ljóst að hún vegur þungt að mati peninga­stefnu­nefndar.

Í greiningunni vekur Kon­ráð at­hygli á þróun ríkis­fjár­mála og áformum næstu fjár­laga, þar sem fyrir­séð er að aðhald verði minna en áður var gert ráð fyrir.

Þó að þessi þróun hafi lík­lega lítil skammtímaáhrif á verðbólgu, gæti hún haft áhrif á væntingar.

Breyttar væntingar geta dregið úr trúverðug­leika aðhalds­stefnu Seðla­bankans og því má ætla að nefndin fylgist með þróun fjár­mála­stefnunnar – og jafn­vel víki að henni í næstu yfir­lýsingu.

Fram­virkir vextir á markaði gefa til kynna að stýri­vextir muni aðeins lækka um ríf­lega eitt pró­sentu­stig á næstu þremur árum sem er miklu hægara ferli en margir gerðu ráð fyrir undir lok síðasta árs. Þetta endur­speglar bæði þrálátar verðbólgu­væntingar og þá skoðun að vextir verði að haldast háir þar til verðbólgan sjálf lækkar að marki.

Mark­mið um stýri­vexti á bilinu 4–5% sem margir telja ásættan­legt jafn­vægis­stig, er því ekki raun­hæft í náinni framtíð nema verðbólgan hjaðni varan­lega.

Eins og staðan er í dag, virðist Seðla­bankinn þurfa að halda sverðinu hátt á lofti a.m.k. fram yfir sumarið, segir Konráð.