Útlit er fyrir að stýrivextir Seðlabankans haldist óbreyttir eða lækki lítillega í næstu viku þrátt fyrir væntingar á fyrri hluta ársins um að hægt yrði að slaka á peningastefnunni fyrir sumarið.
Þetta kemur fram í nýrri greiningu Konráðs S. Guðjónssonar, hagfræðings og fyrrverandi efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar.
Hann bendir á að sú sviðsmynd sem margir vonuðust eftir snemma árs, að stýrivextir gætu verið komnir niður í 7% í lok maí, hafi ekki ræst, meðal annars vegna þrálátrar verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Á fundi peningastefnunefndar í næstu viku er því ekki búist við umtalsverðum aðgerðum. Þó að vafi leiki á um hvort nefndin lækki vexti um 0,25 prósentur eða haldi þeim óbreyttum í 7,75%, telur Konráð líklegra að beðið verði með breytingar að sinni.
Í greiningu á vef sínum Ráðdeild kemur fram að raunstýrivextir, þ.e. vextir að teknu tilliti til verðbólgu, muni áfram veita aðhald, enda er gert ráð fyrir að þeir verði yfir 4% í ágúst, jafnvel með óbreyttum nafnvöxtum.
Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi í mars hefur verðbólga mælst á uppleið og fór í 4,2% í síðustu mælingu.
Þótt hluti þeirrar hækkunar skýrist af tímabundnum þáttum, svo sem páskavikum, þá er almennt talið að verðbólgan muni einungis hjaðna hægt yfir sumarið. Greiningar, líkt og frá Arion banka, spá 3,7% verðbólgu í ágúst.
Verðbólguvæntingar eru enn viðvarandi yfir markmiði og valda því að peningastefnunefnd þarf að sýna varfærni.
Á meðan væntingarnar haldast háar er lítið svigrúm fyrir lækkanir, jafnvel þótt vísitala neysluverðs fari örlítið lækkandi.
Þrátt fyrir hert aðhald í formi hávaxta hafa hagsveifluvísar ekki sýnt merki um skarpa kólnun.
Atvinnuleysi er lítið, einkaneysla er áfram öflug og velta fyrirtækja heldur velli. Leiðandi hagvísar, á borð við samræmda mælikvarða Analytica, sýna að hagkerfið er líklega nærri jafnvægisvexti og jafnvel á uppleið.
Það dregur enn frekar úr nauðsyn vaxtaafsláttar og hvetur frekar til þess að Seðlabankinn bregðist við með varkárni.
„Þetta er fíllinn í herberginu“
Konráð segir að blákaldur veruleikinn sé sá að launahækkanir um þessar mundir, eins og frá landnámi, hafa verið mun meiri en samræmast 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans.
„Í mars hækkaði launavísitalan um 6,9% milli ára og á vafalaust þátt í að ágætis gangur virðist vera í einkaneyslu heimilanna, nokkuð sem peningastefnunefnd vakti sérstaklega athygli á í síðustu fundargerð sinni. Þetta er fíllinn í herberginu en fáir vekja athygli á honum, jafnvel þó að fjallað sé um að innlendar vörur hækki hraðar í verði en innfluttar,“ segir Kornráð.

Slíkar hækkanir styðja áfram við neyslu og eftirspurn, sem aftur heldur verðbólguþrýstingi við.
Þótt launaþróun fái ekki ætíð mikla umfjöllun í tengslum við verðbólgu er ljóst að hún vegur þungt að mati peningastefnunefndar.
Í greiningunni vekur Konráð athygli á þróun ríkisfjármála og áformum næstu fjárlaga, þar sem fyrirséð er að aðhald verði minna en áður var gert ráð fyrir.
Þó að þessi þróun hafi líklega lítil skammtímaáhrif á verðbólgu, gæti hún haft áhrif á væntingar.
Breyttar væntingar geta dregið úr trúverðugleika aðhaldsstefnu Seðlabankans og því má ætla að nefndin fylgist með þróun fjármálastefnunnar – og jafnvel víki að henni í næstu yfirlýsingu.
Framvirkir vextir á markaði gefa til kynna að stýrivextir muni aðeins lækka um ríflega eitt prósentustig á næstu þremur árum sem er miklu hægara ferli en margir gerðu ráð fyrir undir lok síðasta árs. Þetta endurspeglar bæði þrálátar verðbólguvæntingar og þá skoðun að vextir verði að haldast háir þar til verðbólgan sjálf lækkar að marki.
Markmið um stýrivexti á bilinu 4–5% sem margir telja ásættanlegt jafnvægisstig, er því ekki raunhæft í náinni framtíð nema verðbólgan hjaðni varanlega.
Eins og staðan er í dag, virðist Seðlabankinn þurfa að halda sverðinu hátt á lofti a.m.k. fram yfir sumarið, segir Konráð.
