Farþegatölur Icelandair fyrir júlí eru í samræmi við væntingar greiningarfyrirtækisins AKKUR og endurspegla áframhaldandi sterka eftirspurn.
Hlaupandi 12 mánaða sætanýting er sögulega há, en sterkur rekstur félagsins á þó undir högg að sækja vegna veikingar Bandaríkjadals.
Icelandair flutti 611 þúsund farþega í júlí, líkt og í sama mánuði í fyrra. Heildarfjöldi farþega frá ársbyrjun nemur nú rúmlega 2,8 milljónum, sem er 9% aukning milli ára.
Samkvæmt greiningu AKKUR eru þetta mjög sterkar tölur í sögulegu samhengi og nýtingarhlutfall síðustu 12 mánaða er líklega það hæsta í sögu félagsins.
Þrátt fyrir góðan gang í rekstri og hækkun meðalverðs um 3,1% milli ára hefur veiking Bandaríkjadals um u.þ.b. 11,5% gagnvart krónu neikvæð áhrif á tekjur.
Þar sem meirihluti tekna félagsins er í USD er raunveruleg tekjulækkun í íslenskum krónum líklega á bilinu 7–8%. Þetta skapar þrýsting á framlegð Icelandair.
Samkvæmt greiningu AKKUR lækkar verðmat félagsins lítillega ef gert er ráð fyrir verri EBIT-afkomu.
Ef EBIT árið 2025 fer úr áætluðum 24 milljónum dala í núll lækkar verðmatið úr 2,10 krónum í 2,03 krónur á hlut, að öðru óbreyttu. AKKUR áréttar þó að verðmatið sé ekki markaðsspá, heldur mat á rekstrarvirði miðað við gefnar forsendur.
Í greiningunni er einnig fjallað um fyrirframinnheimtar tekjur – þ.e. þegar farþegar greiða fyrir flug sem enn hefur ekki farið fram.
AKKUR telur eðlilegra að sleppa því að telja slíkar tekjur með sem skuldir í verðmati, enda bera þær ekki vexti og teljast ekki hefðbundin lán. Áhrif slíkrar flokkunar á verðmat eru þó hverfandi.
Hefði þó verið ákveðið að telja þessar tekjur með sem vaxtalausar skuldir hefði veginn fjármagnskostnaður í verðmati lækkað úr 9,25% í 7,80%.
Niðurstaða sjóðstreymismatsins hefði þá verið 2,37 krónur í stað 2,45 króna.