Ekki var mikið um dýrðir á hlutabréfamarkaði í íslensku kauphöllinni í dag. Heildarvelta dagsins á aðalmarkaði nam 3,9 milljörðum króna og lækkaði úrvalsvísitalan OMXI10 um 1,50% í viðskiptum dagsins. Vísitalan stendur fyrir vikið 3.277,44 stigum.
Gengi hækkaði aðeins á hlutabréfum fjögurra félaga í viðskiptum dagsins þar sem Skeljungur hækkaði mest, um 1,45%, en velta með bréfin nam aðeins 20 þúsund krónum. Þá hækkaði gengi bréfa Eimskips um 0,81%, bréf Sýnar um 0,78% og bréf Reita um 0,29%.
Hlutabréf Arion banka lækkuðu mest í dag, um 2,43%. Þá lækkaði gengi Haga um 2,27% og Iceland Seafood International um 1,96%.
Mest var velta með bréf Arion banka en viðskipti með bréfin námu 829 milljónum króna. Þá námu viðskipti með bréf Eimskips 594 milljónum og VÍS 450 milljónum.
Á First North markaði lækkaði gengi bréfa Solid Clouds um 3,53% í 401 þúsund króna viðskiptum og bréf Play lækkuðu um 0,41% í 640 þúsund króna viðskiptum.
Markaðir víða um heim hafa brugðist við áhyggjum af útbreiðslu Ómíkrón afbrigðis kórónuveirunnar og ekki ólíklegt að þróun faraldursins liti stemninguna á markaði hér heima fyrir eins og annars staðar.