Ný könnun Maskínu er nú í gangi en þar er meðal annars spurt út í forsetakosningarnar, sem fara fram í ár. Ein spurningin lýtur að mögulegu framboði Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Spurningin hljóðar svo: Ert þú jákvæð (ur/tt) eða neikvæð (ur/tt) gagnvart því að Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, verði (næsti) forseti Íslands og setjist ásamt maka sínum Felix Bergssyni á Bessastaði?

© Skjáskot (Skjáskot)

„Þetta hefur borist mér til eyrna og það er verið að spyrja um einhverja fleiri, án þess að ég hafi yfirlit yfir það,“ segir Baldur í samtali við Viðskiptablaðið. „Ég veit ekki hverjir standa fyrir þessu eða hvaðan þetta kemur.“ Baldur vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti.

Forsetakosningar fara fram þann 1. júní. Eins og kunnugt er mun Guðni Th. Jóhannesson forseti ekki gefa kost á sér áfram. Þeir sem hafa tilkynnt um framboð eru: Arnar Þór Jónsson, lögmaður og fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Hrund Pétursdóttir, fjárfestir og fyrrum formaður FKA, Tómas Logi Hallgrímsson, rafvirki og félagi í björgunarsveitinni Sigurvon í Sandgerði og Ástþór Magnússon bílasali og stofnandi Friðar 2000.