Áformum Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að breyta tollflokkun pítsaosts íblönduðum jurtaolíu aftur til fyrra horfs hefur verið frestað eftir að hagsmunasamtök landbúnaðar- og matvælaframleiðenda mótmæltu áformunum harðlega.
Skatturinn ákvað árið 2020 að færa pítsaostinn í 4. kafla tollskráningar í stað 21. kafla. Það var gert þvert á álit Evrópusambandsins og Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO). Tollflokkunin hefur gert innflutning ostsins nær ómögulegan.
Evrópusambandið setti Ísland á lista yfir viðskiptahindranir og verður Ísland þar á meðan ríkisstjórnin frestar málinu áfram.
Þá er Ísland einnig til rannsóknar hjá eftirlitsstofnun EFTA vegna málsins en umræddur pítsaostur er fluttur inn frá Belgíu og fellur því undir lög um Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
„Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til gæða og verðs“
Veitingamenn höfðu hins vegar hvatt ríkisstjórnina til dáða en fengu ekki sama hljómgrunn og hagsmunasamtök landbúnaðarins.
Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) hvöttu fjármála- og efnahagsráðuneytið til að standa við fyrirhuguð áform um breytingar á ofangreindu frumvarpi í umsögn sinni í samráðsgátt.
Félagsmenn SVEIT kjósa nefnilega að nota umrædda vöru (jurtablandaðan pítsaost) frekar en staðgengilsvöruna sem framleidd er hér á landi.
„Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til gæða og verðs, en einnig vegna eiginleika vörunnar. Jurtablandaður ostur er sérhannaður til að bakast í blástursofnum og býr yfir eiginleikum sem ekki finnast í staðgengilsvöru sem framleidd er innanlands. Til dæmis myndar jurtaostur ekki skel, er mun teygjanlegri og hefur bræðslueiginleika sem henta fyrirtækjum á veitingamarkaði einstaklega vel í matreiðslu,“ segir í umsögn SVEIT.
Samkvæmt veitingamönnum er mikil eftirspurn er eftir slíkri sérhannaðri vöru „þar sem staðgengilsvaran uppfyllir hvorki kröfur fyrirtækja né neytenda“.
„Ítrekuð gæðavandamál hafa komið upp vegna staðgengilsvörunnar, svo sem mygla, stökk áferð og litabreytingar, t.d. gulnun osts, sem hafa valdið umtalsverðu tjóni fyrirtækja og óhjákvæmilegri óánægju viðskiptavina. Virðist sem innlendur framleiðandi geti ekki, eða vilji ekki, framleiða vöru með þeim eiginleikum sem krafist er og eru nauðsynlegir svo fyrirtæki á veitingamarkaði geti viðhaldið gæðum og stöðugleika í framboði sínu til viðskiptavina,“ segir í umsögn SVEIT.
Í viðtali við Viðskiptablaðið segir framkvæmdastjóri FA að það verði að fara opna á samkeppni við „einokunarfyrirtækið MS“ en Mjólkursamsalan átti stóran þátt í þrýsta á stjórnvöld til að breyta tollflokkun ostsins sér í hag.
Hægt er að lesa ítarlega umfjöllun um málið hér.