Velsældarþingið, Wellbeing Economy Forum, hófst í Hörpu í morgun en það er Embætti landlæknis, í samstarfi við fjölda innlenda og erlenda aðila, sem stendur fyrir þinginu sem fer fram dagana 8. og 9. maí.

Ríkisstjórn Íslands hefur þegar annars innleitt 40 velsældarvísa með það að markmiði að auka velsæld og lífsgæði og um leið seiglu samfélagsins til að takast á við krefjandi áskoranir.

Velsældarþingið er haldið í samstarfi við fjölmargar innlendar og alþjóðlegar stofnanir og samstarfsaðila, þar á meðal forsætisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Alþjóðlegu heilbrigðismálastofnunina, OECD, UNESCO, WEGo, WEAll, Festu – Miðstöð um sjálfbærni, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga. Velsældarþingið er hluti af evrópska verkefninu JA PreventNCD, sem er styrkt af Heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins.

Verndari Velsældarþingsins er forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, og fundarstjóri er Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsu hjá Embætti landlæknis.

Á þinginu verður fjallað um hvernig hægt sé að nota velsældarviðmið við opinbera stefnumótun og í atvinnulífinu, hvernig mælikvarðar geta betur endurspeglað raunverulega líðan og lífsgæði fólks og hvaða hlutverk stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur gegna í uppbyggingu velsældarhagkerfis.

Auk erinda verða vinnustofur og kynningar á verkfærum og verkefnum frá þátttökuríkjum og stofnunum.

„Velsældarhagkerfi snýst um að setja velsæld fólks og jarðarinnar í forgrunn og mæla það sem raunverulega skiptir máli – eins og heilsu, menntun, félagslegt öryggi og sjálfbærni – en ekki einungis hagvöxt. Við þurfum að beina sjónum að þeim þáttum sem hafa bein áhrif á lífsgæði fólks og samfélagslega velferð,“ segir Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir.

Á Velsældarþinginu taka þátt margir af fremstu sérfræðingum heims á sviði velsældarhagkerfis. Meðal þeirra sem flytja erindi eru:

  • Gary Gillespie, aðalhagfræðingur skosku ríkisstjórnarinnar.
  • Lorenzo Fioramonti, fyrrum menntamálaráðherra Ítalíu.
  • Gustavo Merino, hjá UNESCO.
  • Mariana Mazzucato, prófessor og höfundur bókarinnar „Value of Everything“.
  • Kate Raworth, höfundur Doughnut Economics.
  • Romina Boarini, forstöðumaður OECD WISE-setursins.
  • Sandrine Dixson-Declève, formaður Earth4All og sendiherra Club of Rome.
  • Ilona Kickbusch, stofnandi og forstjóri, Global Health Center.
  • Kira Fortune, hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO).
  • Stewart Wallis og Michael Weatherhead, hjá Wellbeing Economy Alliance.
  • Patricia Scotland, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samveldisríkjanna.
  • Elva Rakel Jónsdóttir, forstjóri Festu.
  • Caroline Costongs, framkvæmdastjóri EuroHealthNet.