Rotovia á rætur að rekja til ársins 1984 þegar Sæplast hóf rekstur á Dalvík. Félagið var eitt af fyrstu íslensku fyrirtækjunum til að útvíkka starfsemi sína erlendis þegar það fór að flytja út vörur sínar og kaupa upp verksmiðjur erlendis.

Allt til ársins 2005 starfaði félagið undir merkjum Sæplasts þar til fjárfestar, sem áður höfðu keypt Tempru í Hafnarfirði, keyptu félagið og gáfu sameinuðu félagi nafnið Promens. Promens óx og dafnaði áfram og var um tíma orðið stærsta félag í heimi í framleiðslu á hverfissteyptum afurðum. Seinna meir fór félagið í auknum mæli í umbúðaframleiðslu og keypti m.a. norska umbúðafyrirtækið Polimoon.

Alþjóðlegi umbúðarisinn RCP Group keypti Promens árið 2015 og RCP Group var síðan selt til bandaríska umbúðarisans Berry Group árið 2019, sem var þá eitt þriggja stærstu umbúðaframleiðslufyrirtækja heims. Árið 2022 leiddu framtakssjóðirnir Freyja, sem er í rekstri Kviku eignastýringar, og SÍA IV, sem er í stýringu Stefnis, 114 milljóna dala kaup á hverfissteypudeild Promens og var félaginu þá gefið nafnið Rotovia.

„Allt frá því að Promens var selt úr landi var ég yfir hverfissteypunni hjá félaginu. Okkur fannst einingin, sem sneri að framleiðslu á afurðum úr hverfissteypu, ekki passa nægilega vel inn í þessi stóru fyrirtæki, þ.e. RCP og Berry Group þar sem megináherslan hjá þeim var á sölu og framleiðslu á einnota umbúðum. Við fórum í það árið 2019 að skoða möguleikann á því að koma einingunni heim til Íslands í samstarfi við íslenska fjárfesta. Það tók um þrjú ár og í júní 2022 var hverfissteypueiningin seld aftur til Íslands og endurskírð Rotovia,“ segir Daði Valdimarsson, forstjóri Rotovia.

Rotovia rekur í dag tíu verksmiðjur staðsettar í sjö löndum, Íslandi, Póllandi, Kanada, Þýskalandi, Frakklandi, Hollandi og á Spáni. Höfuðstöðvar þess eru á Dalvík, en heildarstarfsmannafjöldi er á bilinu 700-800 talsins, þar af um 60 á Dalvík. Innan Rotovia starfa meðal annars dótturfélögin Sæplast, Tempra og iTUB. Velta samstæðunnar er um 140 milljónir evra á ári, eða um 21 milljarðar króna.

Tvenns konar tekjustraumar

Tekjustraumar Rotovia eru tvenns konar, annars vegar að hanna, þróa, framleiða og selja eigin vörur, en þaðan koma 45% teknanna.

„Dæmi um þetta eru vörur sem dótturfélög okkar, Sæplast og Tempra, framleiða. Þetta eru Sæplast-kerin,  frauðkassar, húseiningar, fráveitulausnir og Variboxið , sem eru hverfissteyptir tankar notaðir til flutninga á efnavörum.“

55% hluti teknanna eru það sem kallast „custom molding“ eða sérhæfð framleiðsla, þar sem félagið framleiðir íhluti m.a. fyrir alþjóðlega bílaframleiðendur, vindmylluframleiðendur og framleiðendur landbúnaðartækja.

„Þar framleiðum við vörur fyrir viðskiptavini sem koma með ákveðna hönnun til okkar og biðja okkur um að steypa vöruna. Við tökum við hugmyndunum, aðlögum þær að ferlinu okkar, búum til mót og þá á viðskiptavinurinn vöruna og selur hana til endanotenda. Yfirleitt eru þetta íhlutir í einhvern stærri hlut. Við erum t.d. að framleiða jafnvægistanka í vindmyllur fyrir Siemens, kælibox fyrir Yeti og íhluti fyrir landbúnaðartæki hjá fyrirtækjum á borð við Massey Ferguson, John Deere og CLAAS. Einnig framleiðum við díseltanka og „adblue“ tanka fyrir bílaframleiðendurna Daimler AG og MAN SE og báta fyrir Whaly Boats svo eitthvað sé nefnt.“

Við­tal við Daða birtist í Við­skipta­blaðinu sem kom út í gærmorgun. Á­skrif­endur geta lesið við­talið hér.