Í júlí og ágúst dróst velta á í­búða­markaði saman um rúm­lega fjórðung, miðað við meðal­veltu á öðrum árs­fjórðungi, samkvæmt Fjár­mála­stöðug­leika Seðla­banka Ís­lands.

„Þrátt fyrir að dregið hafi úr beinum á­hrifum vegna í­búða­kaupa Grind­víkinga munu af­leidd á­hrif að líkindum halda á­fram að lita markaðinn næstu mánuði. Veru­lega hefur dregið úr út­gáfu nýrra hlut­deildar­lána undan­farna mánuði en lokað hefur verið fyrir um­sóknir um lánin frá því í maí,“ segir í ritinu sem SÍ birti í morgun.

Að mati Seðla­bankans hefði verið heppi­legra að út­gáfa lánanna dreifðist jafnt yfir árið í stað þess að þau séu veitt ó­reglu­lega eins og undan­farin misseri.

„Þar sem í­búða­verð mælist hátt á flesta mæli­kvarða er æski­legt að úr­ræðinu verði að­eins beint í tak­mörkuðum mæli að fyrir fram af­mörkuðum hópi í­búða­kaup­enda sem eru í sárri þörf fyrir hús­næðis­að­stoð til að lág­marka eftir­spurnar­á­hrif,“

Þrátt fyrir hátt verð hefur aukin eftir­spurn verið á í­búða­markaði en hún birtist hvað helst í hærra hlut­falli í­búða sem seljast á yfir­verði. Á öðrum árs­fjórðungi seldust um 17% í­búða yfir á­settu verði á landinu öllu.

Til saman­burðar seldust 12% í­búða yfir á­settu verði á fyrsta árs­fjórðungi og 11% á öðrum árs­fjórðungi 2023.

„Einnig er þróun yfir­verðs á Suður­nesjum og á höfuð­borgar­svæðinu eftir­tektar­verð, enda má búast við að Grind­víkingar hafi helst sóst eftir í­búðum á þeim svæðum.

Á Suður­nesjum seldust um 15% í­búða yfir á­settu verði á fyrsta árs­fjórðungi og 29% á öðrum árs­fjórðungi, en hlut­fallið var um 5% á fyrri helmingi síðasta árs.“

Það sem af er þriðja árs­fjórðungi hafa um 15% í­búða selst yfir á­settu verði á Suður­nesjum. Á höfuð­borgar­svæðinu má greina svipaða þróun þar sem um 17% í­búða hafa selst yfir á­settu verði það sem af er ári saman­borið við um 12% árið 2023.

„Sömu þróun er ekki að sjá annars staðar á landinu. Þrátt fyrir mikla eftir­spurn hefur í­búðum sem aug­lýstar eru til sölu fjölgað lítil­lega á árinu. Nýjar í­búðir aug­lýstar til sölu voru um 37% af heildar­fjölda aug­lýstra í­búða til sölu á landinu öllu um miðjan septem­ber.“

Undan­farna mánuði hefur hlut­fall ný­bygginga af heildar­fram­boði verið það mesta sem mælst hefur frá fjórða fjórðungi 2017, eða yfir það tíma­bil sem gögnin ná til. Fram­boð á nýjum í­búðum er nú svipað og það var mest í lok árs 2019 og fram á mitt ár 2020.