Í júlí og ágúst dróst velta á íbúðamarkaði saman um rúmlega fjórðung, miðað við meðalveltu á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands.
„Þrátt fyrir að dregið hafi úr beinum áhrifum vegna íbúðakaupa Grindvíkinga munu afleidd áhrif að líkindum halda áfram að lita markaðinn næstu mánuði. Verulega hefur dregið úr útgáfu nýrra hlutdeildarlána undanfarna mánuði en lokað hefur verið fyrir umsóknir um lánin frá því í maí,“ segir í ritinu sem SÍ birti í morgun.
Að mati Seðlabankans hefði verið heppilegra að útgáfa lánanna dreifðist jafnt yfir árið í stað þess að þau séu veitt óreglulega eins og undanfarin misseri.
„Þar sem íbúðaverð mælist hátt á flesta mælikvarða er æskilegt að úrræðinu verði aðeins beint í takmörkuðum mæli að fyrir fram afmörkuðum hópi íbúðakaupenda sem eru í sárri þörf fyrir húsnæðisaðstoð til að lágmarka eftirspurnaráhrif,“
Þrátt fyrir hátt verð hefur aukin eftirspurn verið á íbúðamarkaði en hún birtist hvað helst í hærra hlutfalli íbúða sem seljast á yfirverði. Á öðrum ársfjórðungi seldust um 17% íbúða yfir ásettu verði á landinu öllu.
Til samanburðar seldust 12% íbúða yfir ásettu verði á fyrsta ársfjórðungi og 11% á öðrum ársfjórðungi 2023.
„Einnig er þróun yfirverðs á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu eftirtektarverð, enda má búast við að Grindvíkingar hafi helst sóst eftir íbúðum á þeim svæðum.
Á Suðurnesjum seldust um 15% íbúða yfir ásettu verði á fyrsta ársfjórðungi og 29% á öðrum ársfjórðungi, en hlutfallið var um 5% á fyrri helmingi síðasta árs.“
Það sem af er þriðja ársfjórðungi hafa um 15% íbúða selst yfir ásettu verði á Suðurnesjum. Á höfuðborgarsvæðinu má greina svipaða þróun þar sem um 17% íbúða hafa selst yfir ásettu verði það sem af er ári samanborið við um 12% árið 2023.
„Sömu þróun er ekki að sjá annars staðar á landinu. Þrátt fyrir mikla eftirspurn hefur íbúðum sem auglýstar eru til sölu fjölgað lítillega á árinu. Nýjar íbúðir auglýstar til sölu voru um 37% af heildarfjölda auglýstra íbúða til sölu á landinu öllu um miðjan september.“
Undanfarna mánuði hefur hlutfall nýbygginga af heildarframboði verið það mesta sem mælst hefur frá fjórða fjórðungi 2017, eða yfir það tímabil sem gögnin ná til. Framboð á nýjum íbúðum er nú svipað og það var mest í lok árs 2019 og fram á mitt ár 2020.