Velta Íslandshótela á fyrri helmingi ársins nærri þrefaldaðist frá sama tímabili í fyrra og nam 5,2 milljörðum króna. Til samanburðar nam velta hótelkeðjunnar 4,9 milljörðum króna á fyrri árshelmingi 2019.

„Veruleg breyting hefur orðið á rekstri félagsins eftir tvö erfið ár vegna áhrifa af Kórónuveirufaraldrinum. Öll hótel félagsins hafa verið opin nú í sumar eftir að nokkur þeirra höfðu verið lokuð í um 2 ár,“ segir í skýrslu stjórnar í árshlutauppgjöri félagsins.

Hótelkeðjan skilaði 174 milljóna króna rekstrarhagnaði (EBIT) á fyrstu sex mánuðum ársins. Afkoma tímabilsins eftir skatta var hins vegar neikvæð um 417,6 milljónir en á sama tíma í fyrra var hún neikvæð um 659 milljónir. .

Stjórn félagsins bendir á að fjöldi ferðamanna til landsins fyrstu sex mánuði ársins voru 636 þúsund samanborið við um 890 þúsund árið 2019. Þá geri greiningardeildir ráð fyrir að fjöldi ferðamanna árið 2022 verði um 1,5 milljón.

„Væntingar eru til þess að fjöldi ferðamanna árið 2023 nálgist fyrri ár, enn er ákveðin óvissa tengd komu ferðamanna frá Asíu þar sem þeir hafa ekki tekið við sér eftir heimsfaraldurinn og ekki er ljóst hvort eða hvernig stríðsátök í Úkraínu muni hafa áhrif á ferðavilja fólks um allan heim.“

Eignir hótelkeðjunnar voru bókfærðar á 57,1 milljarð króna í lok júní samanborið við 54,7 milljarða í árslok 2021. Eigið fé Íslandshótela nam 19,3 milljörðum í lok annars ársfjórðungs.

Sjá einnig: Íslandshótel í Kauphöllina í vetur

Viðskiptablaðið sagði í byrjun síðasta mánaðar frá áformum Íslandshótela um skráningu á aðallista Kauphallarinnar í haust. Stjórn félagsins samdi við Íslandsbanka og Kviku um ráðgjöf og umsjón vegna fyrirhugaðs útboðs og skráningar. Samkvæmt heimildum blaðsins hafði ekki verið tekin endanleg ákvörðun um hvort um verði að ræða útgáfu nýs hlutafjár eða sölu núverandi eigenda hótelkeðjunnar á eign sinni að hluta.

Stærsti hluthafi Íslandshótela er Ólafur D. Torfason, stjórnarformaður félagsins, en hann fer með um 75%. Fjárfestingarfélagið S38 slhf. er annar stærsti hluthafinn með 24% hlut sem keyptur var á ríflega 2,8 milljarða króna árið 2015. S38 er að mestu í eigu lífeyrissjóða í gegnum samlagshlutafélögin Kjölfestu og Eddu.