Fasteignafélagið Reginn skilaði rúmlega 920 milljóna hagnaði á þriðja ársfjórðungi samanborið við 1,2 milljarða hagnað á sama tíma í fyrra. Félagið hefur hagnast um 4,6 milljarða það sem af er ári. Velta Regins nam 3,1 milljörðum króna á fjórðungnum og jókst um 13% á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu á þriðja ársfjórðungi jókst einnig um tæp 12% á milli ára, úr 1.973 milljónum í 2.206 milljónir.

Leigutekjur Regins jukust um rúm 13% á milli ára og námu rúmum 2,9 milljörðum króna á fjórðungnum. Leigutekjurnar það sem af er ári nema 8.356 milljónum króna, sem er 1,3 milljarði meira en á sama tímabili árið 2021.

Bókfært virði fjárfestingareigna félagsins í lok september var 176 milljarðar króna og var matsbreyting á tímabilinu 8.650 milljónir króna. Þróunareignir eru metnar á 6,3 milljarða, en safnið samanstendur nú af 102 fasteignum sem eru alls um 374 þúsund fermetrar.

Vaxtaberandi skuldir Regins voru 108,6 milljarðar í lok september samanborið við 96 milljarða í lok árs 2021. Eigið fé félagsins er bókfært á 55,6 milljarða og eiginfjárhlutfallið er 30,4%.

Meðal verkefna Regins á árinu var Hafnartorg Gallery sem opnaði um miðjan ágúst síðastliðinn. Með opnunni bættust þrjár nýjar verslanir og sjö veitingastaðir við Hafnartorg. Í tilkynningu félagsins segir að við opnun þessa nýja hluta Hafnartorgs sé nýting Hafnartorgs orðin 90%.

„Afkoma félagsins er í samræmi við uppfærðar áætlanir og er reksturinn stöðugur og traustur. Mikill og vaxandi kraftur virðist einkenna atvinnulífið. Eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði er góð, vanskil í lágmarki og greinileg merki um aukin umsvif í ferðageiranum,“ segir meðal annars í tilkynningu félagsins.