Hamborgarastaðurinn Yuzu velti 719 milljónum króna á rekstrarárinu 2023 samanborið við 482 milljóna króna veltu árið áður.
Salan jókst því um helming á milli ára og var tvöfalt meiri en árið 2021. Í skýrslu stjórnar segir að veltuaukning milli ára skýrist aðallega með fjölgun staða.
Yuzu opnaði dyr sínar við Hverfisgötu 44 haustið 2019. Í dag eru staðirnir sex talsins. Þar af má finna Yuzu í fjórum mathöllum: Borg 29 í Borgartúni, Pósthús Mathöll á Pósthússtræti, Kúmen í Kringlunni, og í Gróðurhúsinu í Hveragerði.
Staðurinn opnaði nýjan stað í Garðabæ á rekstrarárinu 2023. Þá opnaði Yuzu sl. haust í brottfararsal Keflavíkurflugvallar á veitingasvæðinu Aðalstræti.
Staðurinn tapaði sjö milljónum króna á árinu samanborið við tæplega 7 milljóna króna hagnað árið áður.
Í skýrslu stjórnar segir að horfur fyrir árið 2024 væru almennt góðar „þó lítið megi út af bregða í veitingarekstri í dag.“
Stjörnukokkurinn Haukur Már Hauksson, sem er betur þekktur undir nafninu Haukur Chef, á 30% hlut í Yuzu. Viðskiptafélagarnir Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson eiga 30% hlut hvor.
Nánar er fjallað um Yuzu í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.