Ársverðbólga í Bandaríkjunum mældist 3,0% í júní samanborið við 4,0% í maí. Þetta mun vera tólfti mánuðurinn í röð sem verðbólga þar í landi hjaðnar en árið 2022 var verðbólga 9,1% í júní. Verðbólga í Bandaríkjunum hefur ekki verið svona lág síðan í mars 2021.

Verðbólgutölurnar, sem birtar voru rétt í þessu, voru í samræmi við spá hagfræðinga en þeir áttu von á að verðbólgan myndi halda áfram að hjaðna. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,2% milli mánaða.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 4,8% í júní, samanborið við 5,3% í maí. Þetta mun einnig vera í samræmi við verðbólguspá hagfræðinga sem spáðu 5,0%.

Í umfjöllun Financial Times segir að verðbólga í Bandaríkjunum hafi stöðugt verið að færast nær 2% markmiði bandaríska seðlabankans. Kjarnaverðbólgan hafi hins vegar reynst meira krefjandi og bendir allt til þess að seðlabankinn þurfi að hækka stýrivexti enn frekar.

Seðlabanki Bandaríkjanna hefur hækkað stýrivexti í 5 til 5.25 prósent en í ársbyrjun 2022 voru vextir í kringum 0%. Stýrivöxtum var haldið stöðugum við síðasta stefnufund sem haldinn var í júní til að geta gert úttekt á áhrifum fyrri hækkana, en seðlabanki Bandaríkjanna hefur tekið það skýrt fram að búast megi við frekari hækkunum fyrir áramót.