Verðbólga í Bretlandi hjaðnaði um 0,2 prósentur í desember, niður í 10,5% eftir að hafa náð 41 árs hámarki í 11,1% í október. Verðbólgutölurnar voru í samræmi við væntingar greiningaraðila, að því er kemur fram í frétt Financial Times.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur m.a. matvæla-, orku- og áfengisverð, var óbreytt í 6,3%. Hagfræðingar í skoðanakönnun Reuters áttu von á að kjarnaverðbólgan myndi hjaðna í 6,2%.
Árshækkun matvælaverðs mældist 16,9% í desember og hefur ekki verið meiri frá því að mælingar hófust árið 1977.
Englandsbanki hefur hækkað vexti við hverja af síðustu níu vaxtaákvörðunum og standa stýrivextir bankans nú í 3,5%. Hagfræðingur sem FT ræddi við á von á að bankinn hækki stýrivexti upp í 4,5% á næstu mánuðum. Miðað við verðlagningu á afleiðumörkuðum, þá eiga markaðsaðilar von á hálf prósentu hækkun við næstu vaxtaákvörðun bankans þann 2. febrúar næstkomandi.