Sérfræðingar telja að verðbólgan á evrusvæðinu verði meiri en 10% núna í haust og að það muni taka langan tíma að koma henni niður í markmið. Gasverð í Evrópu hefur hækkað mikið á undanförnum misserum. Þetta kemur fram í grein Financial Times.

Hærri verðbólguvæntingar auka þrýsting á Evrópska seðlabankann að taka stærri skref í vaxtahækkunum þrátt fyrir spár um dýpri samdrátt vegna hækkandi orkuverðs. Gasverð í Evrópu fór upp í 343 evrur í síðustu viku, sem er tvöfalt hærra en það var í júlí og sjöfalt hærra en á sama tíma í fyrra.

Stjórnendur Evrópska Seðlabankans vöruðu við því nú á dögunum að allt verði gert til að ná tökum á verðbólgunni, jafnvel þó það þýði aukinn samdráttur og atvinnuleysi.

Verðbólga á evrusvæðinu mældist 8,9% í júlí og spá hagfræðingar því að hún verði 9% í ágúst, en verðbólgutölur ágústmánaðar verða birtar á morgun. Jafnframt telja sérfræðingar að verðbólgan verði meiri en 4% að meðaltali á næsta ári, sem er talsvert yfir 2% verðbólgumarkmiðinu.