Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% á milli júlí og ágúst hefur nú hækkað um 6,0% á ársgrundvelli samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Verðbólgan dróst saman um 0,3 prósentustig frá fyrri mánuði þegar hún mældist 6,3%.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,16% milli mánaða og mældist 3,6%. Árshækkun vísitölunnar án húsnæðis mældist 4,2% í júlí.
Verð á matvöru lækkar í fyrsta sinn í þrjú ár
Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að reiknuð húsaleiga hafi hækkað um 0,9% milli mánaða og rafmagn og hiti hækkuðu um 3,3%. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 7,1% og háskólar lækkuðu um 21,1%.
Verð á matvörum lækkaði um 0,5% (-0,07%) en það er í fyrsta skiptið í þrjú ár sem sá liður lækkar.
Hagstofan áréttar að lækkun í háskólum stafar af niðurfellingu skólagjalda í nokkrum þeirra. Breytingar á kostnaði við nám í háskóla og framhaldsskóla koma fram í tölum ágústsmánaðar en breytingar í grunnskólunum, þar með talið kostnaður við skólamáltíði, munu koma fram í september.
Verðbólga lækkaði umfram spár greiningardeilda bankanna. Greining Íslandsbanka gerði ráð fyrir að verðbólga myndi dragast saman úr 6,3% í 6,2% milli mánaða en hagfræðideild Landsbankans spáði því að verðbólgan myndi standa í stað og mælast 6,3%.
Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er þann 2. október næstkomandi. Peningastefnunefnd Seðlabankans hélt stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% í síðustu viku.