Þegar litið er til samræmdrar vísitölu neysluverðs, samræmdrar verðbólgu, hefur hún mælst svipuð á Íslandi og á evrusvæðinu síðastliðinn áratug.

Frá lokum árs 2016 til byrjunar 2023 mældist hún heldur lægri á Íslandi en á evrusvæðinu. Á síðastliðnu ári hefur hún hins vegar mælst hærri á Íslandi samanborið við evrusvæðið.

Samræmd vísitala neysluverðs [HICP] mælir verðlagsbreytingar á samræmdan hátt innan EES. Tilgangur hennar er að auðvelda samanburð á verðbólgu milli ríkja og tryggja gagnsæi í mati á verðlagsþróun.

Hagstofan byggir útreikning vísitölunnar á sömu gögnum og íslenska neysluverðsvísitalan, þ.e. niðurstöðum úr útgjaldarannsóknum sem Hagstofan framkvæmir reglulega. Samræmda vísitalan er því að mestu leyti undirvísitala þeirrar íslensku þó að munur sé á umfangi þeirra. Mestu munar um að eigið húsnæði er ekki með í samræmdu vísitölunni.

Þá eru útgjöld erlendra ferðamanna og útgjöld þeirra sem búa á stofnunum með í vog samræmdu vísitölunnar en ekki í íslensku neysluverðsvísitölunni.

Í Noregi hefur vísitalan mælst nokkuð hærri í samanburði við hin Norðurlöndin og evrusvæðið. Þá hefur Dönum og Finnum tekist betur til að halda verðbólgunni í skefjum.

Ísland og Þýskaland á svipuðu reiki

Í samanburði við önnur ríki í Evrópu mældist Ísland lengi vel með lægri samræmda verðbólgu, nánar tiltekið á árunum 2017-2020. Á síðustu árum hefur Ísland og Þýskaland verið á svipuðu reiki en Spánn, Ítalía og Frakkland verið með minni verðbólgu.

Pólland hefur upplifað meiri verðbólgu m.a. vegna mikils hagvaxtar og launahækkana. Á hinn bóginn stendur Sviss út sem fyrirmynd efnahagslegs stöðugleika í Evrópu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.